Fyrirburafæðingar drógust örlítið saman á fyrstu mánuðum samkomutakmarkana í kórónuveirufaraldrinum hér á landi og í öðrum hátekjulöndum (e. high-income countries). Í heildina litið drógust fyrirburafæðingar saman um 3-4% á heimsvísu á tímabilinu. Hlutfall andvana fæðinga hélst hins vegar stöðugt.
Þetta eru niðurstöður alþjóðlegrar rannsóknar á tíðni fyrirbura- og andvanafæðinga á fyrstu fjórum mánuðum samkomutakmarkana í kórónuveirufaraldrinum. Tímabilið sem um ræðir er mars til júní árið 2020.
Rannsóknin náði til 42 landa og tók til alls 52 milljóna fæðinga í heiminum. Þrjár íslenskar vísindakonur við Háskóla Íslands komu að rannsókninni. Ein þeirra er Helga Zoega, prófessor í lýðheilsuvísindum, en hún var jafnframt ein af stjórnendum rannsóknarinnar. Emma Marie Swift, dósent í ljósmóðurfræði, og Kristjana Einarsdóttir, prófessor í lýðheilsuvísindum, komu einnig að rannsókninni.
Í samtali við Morgunblaðið segir Helga að ekki sé nákvæmlega vitað hvers vegna tíðni fyrirburafæðinga hafi dregist saman á umræddu tímabili en segir að líklegast sé um samverkandi þætti að ræða. Mögulegar skýringar sem aðstandendur rannsóknarinnar hafa dregið upp eru t.a.m. færri almennar sýkingar hjá barnshafandi konum á tímabilinu, aukið hreinlæti og minnkandi loftmengun frá umferð en fyrri rannsóknir hafa sýnt að sýkingar og mengun geta stuðlað að óvæntum fyrirburafæðingum.
Helga segir jafnframt að talið sé að aðrir þættir gætu hafa haft áhrif á tíðni fyrirburafæðinga á tímabilinu og nefnir í því samhengi þætti sem tengjast þjónustu við barnshafandi konur:
„Forgangsröðun í heilbrigðisþjónustu breyttist á þessum tíma, þ.e. í upphafi faraldursins. Vangaveltur voru um að fækkun í fyrirburafæðingum tengdist lægra þjónustustigi við barnshafandi konur á þessum tíma, ekki síst í lágtekjulöndum. En heilt yfir bentu niðurstöður okkar þó ekki til að þetta hafi verið ráðandi útskýring á okkar niðurstöðum, andvana fæðingum fjölgaði til dæmis ekki í okkar gögnum,“ segir Helga.
Þróunin ekki áframhaldandi
Talað er um fyrirburafæðingar þegar barn fæðist fyrir 37. viku meðgöngu. Um það bil 10% barna í heiminum fæðast fyrir þann tíma eða í kringum 15 milljónir barna ár hvert.
„Okkar mat út frá gögnunum var að fyrirburafæðingum hafi fækkað um nær 50 þúsund á heimsvísu á fyrsta mánuði útgöngu- og samgöngubanns í faraldrinum,“ segir Helga.
Flestar fyrirburafæðingar eru óvæntar þó að sumar þeirra séu fyrir fram ákveðnar til að koma í veg fyrir alvarleg veikindi móður eða barns. Börn sem fæðast fyrir tímann eru í aukinni hættu á að fá ýmsa sjúkdóma og deyja fyrir aldur fram. Fyrirburafæðingar og tengdir kvillar eru meðal helstu ástæðna ungbarnadauða á heimsvísu en í kringum tvær milljónir barna fæðast andvana ár hvert.
Eins og fyrr segir stóð tíðni andvana fæðinga í stað á tímabilinu sem rannsóknin náði til. Spurð út í þetta segir Helga að ekki séu nákvæmar skýringar á þessu en að ákveðnar kenningar hafi verið uppi um að fækkun í fyrir fram ákveðnum fyrirburafæðingum á tímabilinu hafi ekki leitt til fjölgunar í hlutfalli andvana fæðinga.
Nú eru nokkur ár liðin frá því að öllum samkomutakmörkunum var aflétt eftir kórónuveirufaraldurinn. Spurð hvernig þróun fyrirburafæðinga hafi verið síðustu ár, eftir afléttingar samkomutakmarkana, segir Helga að sjálf hafi hún ekki ráðist í sérstakar rannsóknir á því efni. Hún segir að alla jafna hafi tíðni fyrirburafæðinga farið í sambærilegt horf og var fyrir kórónuveirufaraldurinn á heimsvísu og hefur hún ekki séð áframhaldandi fækkun í tíðni slíkra fæðinga. Hún segir að mörgum spurningum um orsakaþætti fyrirburafæðinga sé enn ósvarað.