Hljómsveitin Quarashi, sem naut mikilla vinsælda hér heima og erlendis á árunum 1996 til 2004, kom saman á ný í gærkvöldi þegar hún steig á svið í Lopapeysunni á Írskum dögum á Akranesi, aðeins í þetta eina skipti í sumar.
Sveitin hefur sjaldan komið fram á liðnum árum síðan hún hætti árið 2004 og ríkti því sérstök eftirvænting fyrir þessu tilefni.
Allir fyrrum meginmeðlimir Quarashi, Steinar Fjeldsted, Höskuldur Ólafsson, Sölvi Blöndal, Egill „Tiny“ Thorarensen, Ómar „Swarez“ Hauksson og DJ Gísli Galdur, stigu saman á svið og voru að sögn Hjörvars Gunnarssonar, viðburðastjóra Írskra daga, „ógeðslega flottir“.
https://k100.mbl.is/frettir/2025/06/18/ein_vinsaelasta_sveit_islandssogunnar_snyr_aftur/
„Þeir voru geggjaðir, ógeðslega flottir“
„Veðrið hefur leikið við okkur. Það var dagskrá frá þriðjudegi sem lýkur í dag,“ segir Hjörvar í samtali við mbl.is.
„Lopapeysan var í gær og mjög fjölmennur brekkusöngur. Það hafa örugglega verið 10.000 manns í brekkunni.“
Á hátíðinni er brekkusöngurinn í rauninni fyrirpartí fyrir lopapeysuballið sem haldið er í framhaldi af honum.
„Lopapeysan var í fyrsta skipti í gær á þremur sviðum, þannig að það var eitthvað fyrir alla allan tímann, en hápunkturinn, að öðrum ólöstuðum, var endurkoma Quarashi, þeir voru geggjaðir, ógeðslega flottir.“