sun. 6. júlí 2025 12:40
Íslensku stúlkurnar fagna eftir leikinn við Kósovó í dag.
Stungu Kósovó af í síðari hálfleik

Ísland vann mjög öruggan sigur á Kósovó, 82:50, í B-deild Evrópukeppni U18 ára landsliða stúlkna í Litháen í dag.

Íslenska liðið er þá komið með fjögur stig úr fyrstu þremur leikjum sínum, jafnmörg og Litháen og Úkraína sem eru í sama riðli, en þau eiga bæði eftir leik í þriðju umferðinni í dag.

Fyrri hálfleikur var jafn og staðan að honum loknum 35:32, Íslandi í hag. Íslensku stúlkurnar náðu hins vegar yfirhöndinni í þriðja leikhluta, staðan var 59:42 að honum loknum, og eftir það jókst forskotið til leiksloka.

Elísabet Ólafsdóttir skoraði 16 stig fyrir Ísland, Kolbrún Ármannsdóttir 13, Rebekka Steingrímsdóttir 12, Jóhanna Ágústsdóttir 11, Hanna Halldórsdóttir 10, Þórey Þorleifsdóttir 6, Arndís Matthíasdóttir 5, Emma Snæbjarnardóttir 4, Bára Óladóttir 3 og Heiðrún Hlynsdóttir 2.

Ísland mætir Aserbaídsjan á þriðjudaginn og Úkraínu á miðvikudaginn.

til baka