sun. 6. júlí 2025 15:00
Bjarni og Gústi snæddu hádegismat með útsýni yfir bæinn Interlaken í Sviss.
Náði ekkert að njóta sín á einum fallegasta stað heims

„Við ætluðum aðeins að njóta eftir blaðamannahitting gærdagsins og fórum til Interlaken sem er einn frægasti staðurinn og bærinn í Sviss,“ sagði Bjarni Helgason í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is.

Bjarni er staddur í Sviss til þess að fylgja eftir íslenska kvennalandsliðinu í fótbolta á yfirstandandi Evrópumóti en með honum í fór er verkefnastjórinn og samfélagsmiðlastjarnan Ágúst Beinteinn Árnason, betur þekktur sem Gústi B.

 

Bað líka um hleðslutæki

Interlaken er þekktur fyrir einstaklega fallegt útsýni, sér í lagi þegar keyrt er upp í fjöllin fyrir ofan bæinn.

„Ef þú leitar að fallegum stöðum á samfélagsmiðlinum Instagram þá er Interlaken efst á blaði,“ sagði Bjarni.

„Það var reyndar smá vesen á Gústa þarna og hann byrjar á því að spyrja um internettengingu. Þjónustukonan svarar strax að það sé engin internettenging í boði en að þau bjóði upp á útsýni. 

Gústi sest svo niður, frekar pirraður og fer beint í símann. Stuttu seinna fer hann aftur til þjónustukonunnar og spyr hana um hleðslutæki. Þá fékk hún alveg nóg af honum,“ sagði Bjarni meðal annars.

Hægt er að hlusta á umræðuna í heild sinni í spil­ar­an­um hér fyr­ir ofan eða með því að smella hér. Þátt­ur­inn er einnig aðgengi­leg­ur á öll­um helstu hlaðvarps­veit­um.

til baka