sun. 6. júlí 2025 12:00
Frá Lopapeysunni á Írskum dögum á Akranesi.
Gleði og velgengi á bæjarhátíðum helgarinnar

Líða fer að lokum einnar stærstu ferðahelgi Íslendinga á árinu. Mikið var um að vera um allt land og umferðin þétt en gekk þokkalega. Engin alvarleg slys hafa orðið að sögn varðstjóra í umferðardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Mjög mikil umferð var út úr bænum á föstudag og reiknar lögregla með að fólk skili sér til baka í dag. Þannig megi búast við mikilli umferð í bæinn og að lögregla verði sýnileg á vegunum.

Að sögn varðstjóra hefur umferðin á stóru ferðahelgunum breyst. Margir fari af stað á fimmtudögum, fólk sem kannski er í vinnutímastyttingu. Þannig hafi umferðin út úr bænum dreifst, sem sé hið besta mál.

Hátíðarhöld á Akranesi

Ásmundur Kr. Ásmundsson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni á Vesturlandi, segir hátíðarhald helgarinnar á Akranesi hafa gengið vonum framar.

Mikill fjöldi fólks sótti bæinn heim en í gær höfðu skipuleggjendur til dæmis leyfi fyrir 5.000 manns á lopapeysuballinu.

Ásmundur segist fjölga lögreglumönnum á vakt töluvert á svona helgum.

„Þetta er nánast tvöföldun á íbúafjölda á Akranesi. Við aukum eftirlit frá því að vera fjórir á vakt í tæplega þrjátíu.“

Þá segir hann mjög öflugt kerfi hafa verið sett upp; myndavélakerfi og myndavélaturna auk öflugrar öryggisgæsla ásamt lögreglu.

 

„Við fylgjumst sérstaklega með þjóðveginum, Vesturlandsveginum, við erum að taka hann á föstudeginum og aftur á sunnudeginum.“

Segir Ásmundur að í nótt og í dag hefðu fjórir ökumenn verið stöðvaðir sem grunaðir voru um ölvun við akstur.

Hann segir hækkun aldurstakmarks úr 18 ára upp í 20 ára og aldurstakmark á tjaldsvæði hafa haft góð áhrif á öryggi og velgengi hátíðarhaldanna á milli ára. Öflug og sýnileg gæsla hjálpi líka alltaf til.

„Það er allskyns fólk sem kemur að þessu, sjúkrahúsið eykur sitt viðbragð, sjúkrabílarnir, barnavernd. Það er allskyns viðbragð í gangi á svona viðburði.“

„Eiginlega bara fáránlega rólegt“ á Akureyri

Tvö fót­bolta­mót voru á Ak­ur­eyri um helg­ina, N1-mót KA og Polla­mót Þórs, og því mik­ill fjöldi fólks í bæn­um.

Þrátt fyrir þunga umferð og mannfjölda segir vakthafandi varðstjóri hjá lögreglunni á Akureyri helgina hafa gengið gríðarlega vel fyrir sig.

„Það var eitt umferðarlagabrot í nótt en þetta var eiginlega bara fáránlega rólegt,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Í gærkvöldi var stórt ball í Boganum og var lögregla með eftirlit á staðnum en að sögn varðstjórans urðu þar engin atvik.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/logregla_segir_hegdun_gesta_til_fyrirmyndar/

 

Eins og fram hefur komið varð bílslys á tíunda tímanum á föstudagskvöldið er þrjú ökutæki skullu sam­an á þjóðvegi 1 í Hörgár­dal. Sex voru í öku­tækj­unum þremur.

Allir hafa verið út­skrifaðir af sjúkra­húsi og eng­inn hlaut al­var­leg meiðsli.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/allir_utskrifadir_af_sjukrahusi_eftir_bilslysid/

Allir sáttir í Vestmannaeyjum

Stefán Árni Jónsson, varðstjóri hjá lögreglunni í Vestmannaeyjum, segir Goslokahátíðina hafa gengið mjög vel.

Síðasti dagur hátíðarinnar er í dag en það sem af er helginni hefur allt gengið nokkuð hikstalaust fyrir sig. Eins og á það til að gerast á útihátíðum komu léttvæg ölvunarmál á borð lögreglu en ekkert alvarlegt.

„Við erum bara mjög sáttir,“ segir Stefán í samtali við mbl.is.

 

 

Allt í blóma í Hver­gerði

Hátíðin Allt í blóma var í Hver­gerði um helgina og gekk að sögn Sig­ur­geirs Skafta Flosa­sonar, eins stofn­enda og skipu­leggj­enda hátíðar­inn­ar, ofboðslega vel.

mbl.is greindi frá því í gær að tón­leik­ar Stjórn­ar­inn­ar hefðu fallið niður á föstudagskvöldið vegna veik­inda söng­kon­unn­ar Siggu Bein­teins.

Sigurgeir sagði stemninguna þó ríkja áfram með markaði, barna­skemmt­un, tón­leik­um og balli.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/tonleikum_aflyst_vegna_veikinda_siggu_beinteins/

Tvær bæjarhátíðir á Vestfjörðum

Mik­ill fjöldi fólks var á Vest­fjörðum um helgina en þar voru tvær bæj­ar­hátíðir, Bíldu­dals græn­ar baun­ir og Markaðshelg­in í Bol­unga­rvík.

Hlyn­ur Snorra­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá lög­regl­unni á Vest­fjörðum, sagði við mbl.is í gær að allt hefði gengið vel, þó eitthvað hefði verið um hraðakst­ur.

Hann sagði lög­reglu vera með öfl­ugt um­ferðareft­ir­lit og von­ast til þess að öku­menn stilli hraðanum í hóf og séu vel stemmd­ir til akst­urs, „ef eitt­hvað út af bregður þá má fólk bú­ast við viðeig­andi af­skipt­um,“ er haft eftir Hlyn­i úr umfjöllun mbl.is síðan í gær.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/missti_stjorn_og_hafnadi_utan_vegar/

til baka