sun. 6. júlí 2025 14:50
Ísabella Rós er rauðhærðasti Íslendingurinn.
Ísabella Rós er rauðhærðasti Íslendingurinn

Hin 12 ára gamla Ísabella Rós var valin rauðhærðasti Íslendingurinn á írskum dögum á Akranesi í gær.

Ísabella býr í Hvalfjarðarsveit og gengur í Heiðarskóla. Hún hefur mikinn áhuga á íþróttum og skapandi greinum og hefur prófað margar mismunandi íþróttagreinar hjá ÍA og æft crossfit hjá Ægi. 

Ísabella elskar líka að ferðast utan landssteinana og kemur vinningurinn, gjafabréf í flug með Icelandair, því að góðum notum.

 

Pælingin að vinningshafinn skelli sér til Dyflinnar

Um þrjátíu manns kepptust um titilinn „rauðhærðasti Íslendingurinn“ í gær en að sögn Hjörvars Gunnarssonar, viðburðastjóra írskra daga, er það metþátttaka í keppninni.

„Það sem stóð upp úr var þessi ofboðslegi fjöldi sem var að keppa í rauðhærðasti íslendingurinn, í fyrra voru bara átta manns að keppa eða eitthvað og í ár voru það þrjátíu,“ segir hann í samtali við mbl.is.

Tveggja manna dómnefndinni hefði þótt mjög erfitt að velja aðeins einn sigurvegara.

Spurður út í vinninginn, gjafabréf í flug með Icelandair, og hvort umrætt flug sé til Dyflinnar á Írlandi svarar Hjörvar:

„Já það er nú pælingin með þessu en þetta er gjafabréf hvert sem er með Icelandair.“

Annað og þriðja sætið fái ísgjafabréf í vinning.

til baka