sun. 6. júlí 2025 10:40
Íbúar á Raufarhöfn, sem eru 183 talsins, mótmæla harðlega mögulegri sölu á félagsheimili bæjarins.
Nær tvöfaldur íbúafjöldi skrifaði undir

Framtíð Hnitbjarga, félagsheimilisins á Raufarhöfn, er í lausu lofti en sveitarfélagið Norðurþing, sem Raufarhöfn hefur tilheyrt frá árinu 2006, hefur ákveðið að skoða mögulega sölu á félagsheimilinu.

Íbúar á Raufarhöfn eru afar ósáttir við ákvörðun sveitarstjórnaryfirvalda Norðurþings og hafa efnt til undirskriftasöfnunar.

Hátt í 400 undirskriftir hafa safnast, sem vekur athygli í ljósi þess að íbúar í bænum eru aðeins 183 samkvæmt tölum Hagstofunnar.

„Þetta félagsheimili er í hjarta bæjarins“

Gunnur Árnadóttir, skólastjóri Grunnskóla Raufarhafnar, ber ábyrgð á undirskriftasöfnuninni en hún segir íbúa í bænum uggandi yfir stöðunni. Samfélagið á Raufarhöfn sé brothætt og megi ekki við miklum skakkaföllum.

„Við mótmælum þessari fyrirhuguðu sölu harðlega. Þetta félagsheimili er í hjarta bæjarins og við teljum mikilvægt að þetta litla samfélag fái að halda félagsheimilinu sínu,“ segir Gunnur í samtali við Morgunblaðið.

Gunnur bætir við að félagsheimilið sé eini staðurinn á Raufarhöfn þar sem hægt er að halda veislur og viðburði, til að mynda sé ekki langt síðan Páll Óskar hafi troðið þar upp.

„Það yrði alveg gríðarlegur söknuður að Hnitbjörgum fyrir íbúa hér á Raufarhöfn,“ segir Gunnur

Hverfisráð andmælir sölunni

Gunnur segir það koma sér verulega á óvart að tekin hafi verið ákvörðun um mögulega sölu á félagsheimilinu. Hún segir hverfisráð Raufarhafnar hafa borið fram andmæli á borð sveitarstjórnar vegna ákvörðunarinnar en sveitarstjórn tók ekki tillit til þess að sögn Gunnar.

„Við höfum verið að lenda í því að fólk sé að kaupa húsnæði hér án þess að bera taugar til bæjarins. Við erum að reyna að tryggja það að félagsheimilið verði áfram hér og í eigu samfélagsins okkar, það yrði sorglegt ef einhver Jóhannes úti í bæ keypti það,“ segir Gunnur að lokum.

Sveitarstjóri tjáir sig

„Það var tekin ákvörðun um það að skoða sölu á fjórum eignum sveitarfélagsins sem eru ekki í kjarnastarfsemi,“ segir Katrín Sigurjónsdóttir sveitarstjóri Norðurþings.

Að sögn Katrínar er um eignir að ræða sem eru í takmarkaðri notkun hjá sveitarfélaginu en hún telur að annað húsnæði geti sinnt sömu þjónustu.

til baka