Að minnsta kosti 32 eru látnir eftir skyndiflóð sem skall á í Texas-ríki í Bandaríkjunum á föstudag. Þar af eru 14 börn og 18 fullorðnir. Enn er á þriðja tug stúlkna saknað frá sumarbúðum sem staðsettar eru við árbakka í Kerr-sýslu.
Flóð skall á í Kerr-sýslu í Texas í Bandaríkjunum, um 150 km frá borginni San Antonio, í gærkvöldi og hefur tala látinna farið hækkandi jafnt og þétt.
Nim Kidd, yfirmaður neyðarstjórnunar í Texas, heitir því að leitað verði þar til allir hafa verið fundnir. Leitað er með þyrlum, bátum og björgunarfólki á jörðu niðri.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/07/05/heita_thvi_ad_leita_thangad_til_allir_eru_fundnir/
Foreldrar leita að börnunum sínum
Fyrr í dag sagði Larry Leitha, lögreglustjóri í Kerr-sýslu, að enn væri leitað að 27 stúlkum úr kristilegu sumarbúðunum Camp Mystic, sem urðu illa úti í flóðunum. Um 750 stúlkur voru skráðar í búðirnar.
Bandarískir fjölmiðlar hafa í kjölfarið fengið staðfest að fjórar stúlkur af þeim 27 hafi fundist látnar.
Búðirnar, sem standa við bakka Guadalupe-árinnar, urðu fyrir miklu tjóni. Teppi, dýnur, bangsar, glerbrot og annað liggur á víð og dreif um sumarbúðirnar. Foreldrar stúlknanna taka þátt í leitinni á vettvangi.
„Dóttir mín var hér,“ sagði Michael, faðir sem leitar nú dóttur sinnar, í samtali við AFP-fréttaveituna þegar hann skoðaði grjóthlaðinn kofa með brotnum gluggum og fann að lokum handklæði með nafninu hennar, armband og fjölskyldumynd.