Fundahöldum þingflokksformanna var framhaldið í dag. Þingflokksformaður Viðreisnar segir að ekki sé búið að leysa þann „hörkuhnút“ sem er í deilum ríkisstjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar. Þingflokksformaður Miðflokksins segir stöðuna flókna.
„Ég er bjartsýnn, en þetta er hörkuhnútur sem við erum ekki enn búin að leysa,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingflokksformaður Viðreisnar, í samtali við mbl.is.
Hann segir línur aðeins hafa skýrst þó að ekki hafi enn ekki tekist að semja um þinglok.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/langt_a_milli_i_sumum_malum_en_tho_bjartsyn/
Telur menn vera lausnamiðaða
Bergþór Ólason þingflokksformaður Miðflokksins segir í samtali við mbl.is áframhaldandi þreifingar hafa verið á fundinum. Hann telur aðila beggja megin borðsins vera lausnarmiðaða en segir stöðuna jafnframt flókna og tíma þurfi til að vinna úr henni.
Spurður hvort farið sé að sjást í endann á þinginu kveðst Bergþór ekki þora að segja til um slíkt.
„Það gerist yfirleitt hratt þegar það gerist, en ég held að það voni það allir.“
Stjórnarandstaðan óskar eftir frestun
Veiðigjaldafrumvarpið var ekki á dagskrá þingsins í dag og stjórnarandstaðan hefur óskað eftir því að málinu verði frestað fram á haust.
„Það liggur fyrir að atvinnuvegaráðherra og stjórnin eru ekki þessarar skoðunar, að minnsta kosti ekki enn sem komið er,“ segir Bergþór.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/vilja_fresta_veidigjaldafrumvarpinu_fram_a_haust/