lau. 5. júlí 2025 18:42
Í bráðri hættu Svartbak hefur fækkað um 84% á síðustu áratugum og er stofninn nú talinn vera í bráðri hættu.
Svartbakur í bráðri útrýmingarhættu

Svartbakur er nú ein af fjórum fuglategundum sem flokkaðar eru í bráðri hættu á nýjum válista fugla, sem Náttúrufræðistofnun hefur birt, en svartbökum hér á landi hefur fækkað um 84% frá árinu 1987. Hinar tegundirnar þrjár, fjöruspói, lundi og skúmur, voru flokkaðar í bráðri hættu á válista sem stofnunin birti árið 2018.

Aldís Erna Pálsdóttir, vistfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, segir ekki ljóst hvers vegna svartbak hefur fækkað jafn mikið og raun ber vitni en árið 2016 var stofninn áætlaður 6-8.000 pör og hefur að öllum líkindum fækkað síðan.

„Það getur verið búsvæðatap og hugsanlega af mannavöldum en við höfum séð að svartbak hefur snarfækkað í vetrarfuglatalningum sem þetta mat byggist að miklu leyti á og mörg af stærri vörpum sem voru til forna eru horfin,“ segir hún.

43 tegundir í hættu

Fjöruspói er sjaldgæfur varpfugl á Íslandi en hann hefur átt undir högg að sækja í öðrum Evrópulöndum. Skúmur og lundi voru taldir í bráðri hættu á síðasta lista en þessum fuglum hafði þá fækkað um yfir 80% á viðmiðunartímabili og ekki hefur dregið úr fækkun í þessum stofnum síðan þá.

Fram kemur á vef Náttúru­fræðistofnunar að af 91 tegund, sem metin var nú, teljast 43 í hættu, saman­borið við 41 í síðustu útgáfu válistans. Í hópi vaðfugla urðu miklar breytingar. Fjórar tegundir sem áður töldust ekki í hættu eru nú flokkaðar „í nokkurri hættu“. Þetta eru lóuþræll, stelkur, heiðlóa og spói. Talningar sýna að þessum fuglum hefur fækkað víðsvegar um landið á undanförnum árum.

Þá hafa nokkrar andategundir nú verið flokkaðar „í yfirvofandi hættu“. Þær eru rauðhöfðaönd, straumönd, toppönd, urtönd og skúfönd. Sumar þessara tegunda eru staðfuglar og endurspeglast stofnþróun í vetrarfuglatalningum Náttúrufræðistofnunar en hjá farfuglum er stuðst við talningar á varptíma, einkum úr Mývatnssveit.

Flestir ránfuglar í hættu

Flestir ránfuglar, sem finnast hér á landi, eru taldir í hættu eða yfirvofandi hættu. Haförn telst enn í hættu vegna lítillar stofnstærðar, þótt stofninn hafi vaxið jafnt og þétt á síðari árum. Fálka hefur hins vegar fækkað hratt á síðustu árum samkvæmt vetrarfuglatalningum, rannsóknum á ábúð og fleiri gögnum. Talið er að fuglaflensa spili þar stórt hlutverk.

Nokkrar fuglategundir hafa færst í lægri flokk vegna þess að hægt hefur á fækkun. Þar á meðal eru teista, toppskarfur, langvía og stuttnefja.

til baka