Birna Bragadóttir varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins tók sæti á Alþingi í fyrsta skipti í gær en hún kemur inn í stað Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur sem tók sér hlé frá þingstörfum og settist á skólabekk.
Birna segir það hafa verið mjög sérstaka stund að taka sæti á þingi og undirrita drengskaparheit við stjórnarskrána.
„Ég fylltist stolti og djúpri virðingu fyrir þinginu. Alþingi er ein mikilvægasta stofnun samfélagsins og þjóðarinnar og það er mér mikill heiður að fá að taka sæti í fjarveru Áslaugar Örnu,“ segir Birna.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/03/varathingmadur_tekur_vid_thingsaeti_aslaugar/
Hún segir kallið hafa komið fyrr en hún hafði vænst og með minna en sólarhringsfyrirvara. Hún þurfti þó ekki að hugsa sig tvisvar um og er staðráðin í að láta til sín taka.
„Ég lít svo á að maður eigi að nýta tækifærin þegar þau gefast – og þegar maður fær tækifæri til þess að sitja á þingi, eins og ég fæ núna, þá ber manni skylda til þess að nýta tímann vel og láta til sín taka.“
Vatt sér í jómfrúrræðu
Birna segist hafa fengið hlýjar móttökur á þinginu.
Mér var afar vel tekið, bæði af þingmönnum Sjálfstæðisflokksins og annarra flokka og ekki síður af starfsfólki þingsins. Það er skemmtilegt að finna þessa miklu hlýju frá öllum þrátt fyrir að fólk sé að takast á í þingsal. Hér er margt gott fólk þvert á flokka sem ég hef kynnst við ólíkar aðstæður og öll eiga það sameiginlegt að vera að vinna að ákveðnum hugsjónum um það hvernig eigi að reka samfélag – og út á það snýst skoðanaágreiningurinn.“
Jómfrúrræðan er jafnan stór stund hjá hverjum þingmanni. Birna beið ekki boðanna og flutti jómfrúrræðu sína strax á fyrsta degi.
„Eftir að hafa hlýtt á umræður framan af degi ákvað ég að ofhugsa ekki jómfrúrræðuna og láta strax til mín taka. Ég ræddi um afnám samsköttunar hjóna, sem mun koma illa við margar fjölskyldur og við sjálfstæðismenn erum eindregið á móti, eins og öðrum skattahækkunum.“
Spurð hvort hún finni fyrir spennu í þinginu segir Birna:
„Þeir sem hafa setið lengur á þingi segja mér að þetta séu mjög sérstakir tímar í þinginu núna, en ég þekki auðvitað ekki annað, svo að fyrir mér eru þessir sérstöku tímar bara venjulegir.“