Sú ákvörðun meirihlutans í borgarráði Reykjavíkur að draga fána Palestínu að húni við ráðhúsið virðist ekki með öllu útgjalda- og áhættulaus.
Ákvörðunin var tekin á sérstökum aukafundi sem boðaður var til þess eins að meirihlutinn gæti samþykkt tillögu um að flagga palestínska fánanum við hlið úkraínska fánans. Meirihlutinn samþykkti það og í kjölfarið var fánanum flaggað.
Í fundargerðinni kemur fram að framkvæmt hafi verið, að beiðni formanns borgarráðs, áhættumat en efni þess er þó ekki reifað frekar í fundargerðinni.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/03/aukin_ahaetta_vegna_fanans_mikill_asi_a_malinu/
Áhættustig lágt
Þorsteinn Gunnarsson borgarritari sendi tölvupóst á alla borgarfulltrúa í kjölfar fundarins þar sem hann tilkynnti að áhættumatið hefði leitt í ljós að áhættustig væri lágt en þrátt fyrir það þyrfti að grípa til ákveðinna aðgerða til að tryggja öryggi.
Meðal þeirra aðgerða sem gripið verður til eru aukin vöktun og öryggisgæsla í ráðhúsinu og einnig verður þjónustu- og nýsköpunarsviði gert að undirbúa ráðstafanir vegna hugsanlegra árása tölvuþrjóta á tölvukerfi borgarinnar. Verklagsreglur vegna hótana í garð borgarfulltrúa hafa samhliða þessu verið uppfærðar.
Morgunblaðið hefur ítrekað reynt að ná tali af borgarritara vegna framkvæmdar áhættumatsins en án árangurs. Áhættumatið er bundið trúnaði og hafa borgarfulltrúar ekki viljað tjá sig um efni þess umfram það sem fram kemur í fundargerðinni.