Lögreglu var tilkynnt um slagsmál tveggja manna fyrir utan skemmtistað í miðborginni í nótt. Lögregla ræddi við báða mennina í sitt hvoru lagi en annar varð æstur í viðræðum við lögreglu og endaði á að berja í lögreglubifreið á vettvangi.
Þetta segir í dagbók lögreglu.
Maðurinn hafi verið verulega ölvaður og með ofbeldistilburði og því handtekinn og vistaður í klefa.
Lögreglu var einnig tilkynnt um að æst kona hefði verið að slást við dyraverði á skemmtistað í miðborginni.
Grunsamlegar erindagjörðir inni á vinnusvæði
Á tímabilinu frá því klukkan 17.00 í gær til klukkan 05.00 í morgun komu 80 mál á borð lögreglu og voru tveir vistaðir í klefa. Nokkrir ökumenn voru stöðvaðir ölvaðir eða undir áhrifum fíkniefna í umferðinni. Nokkuð var um ágreining milli maka sem og samkvæmishávaða.
Í Reykjavík var tilkynnt um slys þar sem ungmenni féll niður nokkra hæð og var með aflögun á hendi eftir fallið.
Á lögreglustöð 2, sem sinnir verkefnum í Hafnarfirði og Garðabæ, var lögreglu tilkynnt um hóp pilta í grunsamlegum erindagjörðum inni á vinnusvæði að eiga við vinnuvélar. Hópurinn var þó farinn af vettvangi áður en lögregla kom.
Meira en til í að vera kærður fyrir atvikið
Lögreglustöð 2 var einnig tilkynnt um að tveir menn hefðu farið úr leigubíl án þess að borga bílstjóranum fyrir að aka þeim nokkuð langa vegalengd. Leiðbeindi lögregla bílstjóranum þá varðandi kæruferli.
Á Lögreglustöð 3, sem sinnir verkefnum í Kópavogi og Breiðholti, var tilkynnt um svipað atvik en þá neitaði maður að borga leigubílstjóra fyrir far.
Sá var í samskiptum sínum við lögreglu meira en til í að vera kærður fyrir atvikið og var leigubílstjóranum leiðbeint með kæruferli.
Tveir ungir drengir grunaðir um íkveikju
Á lögreglustöð 4, sem sér um verkefni í Árbæ, Norðlingaholti, Grafarholti, Úlfarsárdal, Grafarvogi, Mosfellsbæ, Kjósarhreppi og Kjalarnesi, var tilkynnt um bruna í pappa í garði.
Búið var að slökkva eldinn áður en lögregla kom en tveir ungir drengir eru grunaðir um íkveikju.
Þá voru afskipti höfð af manni sem seinna kom í ljós að var í ólöglegri dvöl. Á honum fannst síðan mikið magn fíkniefna. Var hann handtekinn og vistaður í klefa.