Katla Tryggvadóttir átti frábæra innkomu þegar Ísland tapaði fyrir Finnlandi, 1:0, í upphafsleik Evrópumóts kvenna í fótbolta í A-riðli keppninnar í Thun í Sviss á miðvikudaginn.
Katla, sem varð tvítug í maí, er á sínu fyrsta stórmóti með íslenska liðinu en hún er yngsti leikmaðurinn í landsliðshóp Íslands.
Ísland mætir Sviss í 2. umferð riðlakeppninnar í Bern í dag og þarf nauðsynlega á sigri að halda til þess að eiga góða möguleika á sæti í átta liða úrslitum keppninnar fyrir lokaleikinn gegn Noregi í riðlakeppninni þann 10. júlí í Thun.
Komin niður á jörðina
„Alls ekki!“ sagði Katla þegar hún var spurð hvort hún væri að setja einhverja pressu á landsliðsþjálfarann um að stilla sér upp í byrjunarliðinu gegn Sviss í liðshóteli íslenska liðsins í Thun á föstudaginn.
„Ég er komin aftur niður á jörðina eftir leikinn gegn Finnlandi og þó það hafi verið gaman að fá þessar mínútur þá var það algjört aukaatriði í stóra samhenginu.
Við erum allar að róa í sömu átt, að sömu markmiðum og það er það eina sem þetta snýst um,“ bætti Katla við í samtali við mbl.is.