„Við fengum mjög mikilvægan tíma með fjölskyldum okkar í gær,“ sagði Sveindís Jane Jónsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Thun í Sviss á föstudaginn.
Íslenska liðið tapaði sínum fyrsta leik á Evrópumótinu gegn Finnlandi í A-riðli keppninnar í Thun á miðvikudaginn en liðið mætir heimakonum í Sviss í hálfgerðum úrslitaleik í Bern í dag í 2. umferð riðlakeppninnar.
Á fimmtudaginn var fjölskyldudagur hjá leikmönnum og starfsteymi liðsins þar sem fjölskyldum leikmannanna var boðið í grill á hótelinu en leikmenn fengu svo frjálsan tíma með fjölskyldiumeðlimum sínum eftir kvöldmat.
Love Island á kvöldin
„Þetta var gott fyrir alla, starfsfólkið líka, og það var gott að fá smá frí þarna um kvöldið,“ sagði Sveindís.
„Þetta er geggjaður staður sem við erum á en það er líka gott að geta kúplað sig aðeins út úr öllu inn á milli og núna er öll okkar einbeiting á leiknum gegn Sviss,“ sagði Sveindís.
Það er ekki hægt
Móðir Sveindísar, Eunice Quason, er alltaf mjög lífleg í stúkunni og líka stressuð inn á milli en reynir Sveindís eitthvað að róa taugarnar hjá móður sinni fyrir leiki?
„Það er ekki hægt, ég reyni ekki einu sinni. Hún er mjög skemmtileg týpa og alltaf til í stuð og stemningu. Þetta eru hennar einkenni og þú vilt alls ekki breyta því,“ bætti Sveindís við.