sun. 6. júlí 2025 10:00
Sveindís Jane Jónsdóttir.
Sveindís sló á létta strengi: „Ég nenni þessu ekki“

Sveindís Jane Jónsdóttir, ein skærasta stjarna íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, mætti í sitt fyrsta viðtal á Evrópumótinu á föstudaginn, ef frá er talið viðtalið við hana strax eftir leik Íslands og Finnlands í upphafsleik keppninnar í Thun á miðvikudaginn.

Ágúst Beinteinn Árnason, verkefnastjóri samfélagsmiðla hjá mbl.is og Morgunblaðinu, velti upp þeirri spurningu hvort Sveindís væri geymd í bómull upp á hótelherbergi í Fyrsta sætinu, íþróttahlaðvarpi mbl.is og Morgunblaðsins.

https://www.mbl.is/sport/efstadeild/2025/07/02/kalla_eftir_breyttu_skipulagi_hja_ksi/

Það var létt yfir Sveindísi eins og hennar er von og vís þegar hún ræddi við blaðamann á liðshóteli íslenska liðsins og var hún meðal annars spurð út í ummæli Ágústar.

Love Island á kvöldin

„Þetta er góð spurning, er ég ekki búin að mæta í nein viðtöl? Ég man það ekki,“ sagði Sveindís í samtali við mbl.is.

„Ég er bara búin að vera inn á hóteli að spila, það hefur enginn viljað tala við mig sem er frábært, ég nenni þessu ekki hvort sem er,“ sagði Sveindís og hló en hún var því næst spurð að því hvernig landsliðskonurnar væru að stytta sér stundir.

„Við erum að spila, púsla, lita og búa til armbönd. Það er nóg að gera hjá okkur og svo horfum við á Love Island á kvöldin,“ bætti Sveindís við í samtali við mbl.is.

til baka