„Mér finnst þetta fyndið,“ sagði Agla María Albertsdóttir, leikmaður íslenska kvennalandsliðsins í fótbolta, í samtali við mbl.is á liðshóteli íslenska liðsins í Thun í Sviss á föstudaginn.
Mikið hefur verið rætt og ritað um samfélagsmiðlanotkun leikmanna liðsins eftir að Evrópumótið í Sviss hófst þann 2. júlí en Ísland tapaði sínum fyrsta leik á mótinu gegn Finnlandi í Thun, 1:0.
Frammistaða íslenska liðsins í fyrri hálfleik var afar slök og þarf Ísland á sigri að halda í 2. umferð riðlakeppninnar gegn Sviss í dag, ætli liðið að eiga sér að möguleika á því að komast áfram í átta liða úrslit keppninnar.
Einbeitt á verkefnið
„Á móti kemur er áhugi á liðinu og það er alltaf þannig, þegar hlutirnir ganga ekki vel, að það er reynt að rýna í hvert smáatriði og finna eitthvað að því,“ sagði Agla María.
„Fyrir mér þá skiptir engu máli hvað fólk er að gera fyrir utan æfingasvæðið, hvort sem það er að vinna, læra eða vera á TikTok, svo framarlega sem öll einbeiting sé á verkefninu framundan.
Mín upplifun er sú að allir leikmennirnir séu mjög einbeittir á verkefnið framundan,“ sagði Agla María meðal annars í samtali við mbl.is.