Borgarstjórn Kerrville í Texas hefur sent frá sér flóðviðvörun og segir von á áframhaldandi mikilli rigningu og flóðum.
Segir í viðvöruninni að ekki sé hægt að segja nákvæmlega til um hvar á svæðinu flóðin muni halda áfram.
Flóð skall á í Kerr sýslu í Texas í Bandaríkjunum um 150 km frá borginni San Antonio í gærkvöldi og eru 24 látnir.
Flóðið hefur valdið skaða í bæjunum Kerrville, Ingram og Hunt. Á þriðja tug er enn saknað, meðal annars barna sem dvöldu í sumarbúðum þegar flóðið skall á.
Hundruð viðbragðsaðila hjálpast að við leitina og hafa notið utanaðkomandi aðstoðar. Lögreglan í Kerrville hefur heitið því að halda leit áfram þangað til allir eru fundnir.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/07/05/a_thridja_tug_latnir_vegna_floda_i_texas/
Nota facebook-hóp til að leita að fjölskyldumeðlimum
Fjölskyldur hafa verið að nota facebook-hópinn Kerrville Brekaing News til að leita að týndum ættingjum sínum. Þangað til í gærkvöldi hafði hópurinn verið notaður til að mæla með veitingastöðum og auglýsa viðburði í nágrenninu.
Íbúar á svæðinu hjálpast nú að innan hópsins með því að setja inn myndir, heimilisfang og tengiliðaupplýsingar fólks sem ekki hefur heyrst frá síðan flóðið skall á.
Ein móðir deildi upplýsingum dóttur sinnar og tengdasonar og sagðist ekki hafa heyrt frá þeim, en heimili þeirra væri staðsett við stöðuvatn í Kerrville og hafi orðið undir í flóðinu.
Önnur kona í Austin í Texas sagðist ekki hafa heyrt frá ömmu sinni og afa, sem einnig byggju nálægt Guadalupe-ánni.
„Þetta er algjör eyðilegging“
Bud Bolton var staddur í hjólhýsahverfi í Kerrville þegar vatnið steyptist yfir svæðið.
„Fólk var fast inni í hjólhýsum sem flutu í burtu,“ sagði hann. „Börn öskruðu og ég gat ekkert gert fyrir þau“.
Íbúi í hjólhýsahverfinu Thomas Rux sagðist hafa vaknað við þrumur og mikla rigningu um nóttina og slökkviliðið á svæðinu hefði fljótlega reynt að rýma svæðið. Skömmu síðar tók flóðið hjólhýsið hans.
„Þetta er algjör eyðilegging. Þyrlur fljúga hér inn að bjarga fólki sem er fast í trjám. Þetta er verulega slæmt,“ sagði Lorena, eigandi veitingastaðar í nágrenninu.