lau. 5. júlí 2025 12:30
Þorgrímur Einar Guðbjartsson og eiginkona hans, Helga Elínborg Guðmundsdóttir, eiga og reka Rjómabúið Erpsstaði í Dalabyggð og munu halda upp á Alþjóðlega ostadaginn á morgun, sunnudaginn 6. júlí, með því að bjóða heim í smakk og gleði.
Opna dyr sínar og bjóða upp á smakk í tilefni Alþjóðlega ostadagsins

Rjómabúið Erpsstaðir, vestur í Dalabyggð, verður með opið hús fyrir gesti og gangandi í tilefni af Alþjóðlega ostadeginum sem fram undan er á morgun, sunnudaginn 6. júlí. 

 

Fjölskyldan á bænum heldur upp á daginn með því að bjóða gestum að smakka á völdum ostum, skyri og ekta ítölskum pítsum og eiga góða stund í sveitinni í nánd við náttúru, menn og dýr.

„Veitingastaðurinn Pizza Popolare, sem hefur um nokkurra missera skeið selt pítsur með ostum frá Rjómabúinu Erpsstöðum, mun mæta á svæðið og bjóða upp á pítsur sem verða bakaðar á staðnum. 

 

Einnig verður settur upp „skott“-markaður þar sem sölumenn selja sínar vörur, hver úr sínum bíl. Þeir sem hafa áhuga á að selja geta haft samband við mig og látið vita fyrir daginn í dag, laugardag. Þá munu valdir aðilar bjóða upp á fræðslu um sínar vörur og síðan mun ég vera með stutta sögugöngu sem hefst klukkan 14:00,“ segir Þorgrímur Einar Guðbjartsson ostagerðarmaður og bóndi á Erpsstöðum þegar Matarvefurinn hafði samband við hann.

 

Hann og eiginkona hans, Helga Elínborg Guðmundsdóttir, eiga og reka Erpsstaði í Dalabyggð og hafa meðal annars fengið Landbúnaðarverðlaunin á Búnaðarþingi árið 2023.

 

Leitað verður að Kusu og Kusa

Það verður sannkölluð fjölskylduveisla á Erpsstöðum á morgun en það verður líka farið í fjölskylduratleik þar sem leitað verður að Kusu og Kusa, skúlptúr sem Gus frá Spáni gerði og kom fyrir á Erpsstöðum. Það verður ýmislegt fleira sem hægt verður fyrir allar kynslóðir að dunda sér við.

 

„Þar sem alíslenski skyrdagurinn er hinn 7. júlí næstkomandi og alþjóðlegi dagur kýrinnar þann 8. júlí næstkomandi verður tækifærið notað og boðið upp á skyrsmakk og nóg af skyrmysu og öllum býðst að skoða kýrnar og kálfana. En þá er mikilvægt fyrir gesti að muna að þvo sér áður á eftir, áður en farið er að fá sér að smakka á góðgætinu,“ segir Þorgrímur að lokum sem er farinn að hlakka mikið til að taka á móti gestum.

 

Nánar má lesa um viðburðinn hér.

 

 

til baka