sun. 6. júlí 2025 12:30
Fram kemur að aðhaldssöm peningastefna, gengisstyrking krónunnar og langtímakjarasamningar styðji við hjöðnun verðbólgunnar.
Verðbólgan verði 3,8% í ár

Hagstofan spáir því að verðbólgan verði að meðaltali 3,8% í ár og nálgist verðbólgumarkmið árið 2027. Þetta kemur fram í þjóðhagsspá Hagstofunnar fyrir júlí sem birt var í gær.

Í spánni segir að aðhaldssöm peningastefna, gengisstyrking krónunnar og langtímakjarasamningar styðji við hjöðnun verðbólgunnar þótt á móti vegi að enn er þróttur í hagkerfinu.

„Reiknað er með að launavísitala að raunvirði hækki um 2,8% á árinu. Hægst hefur á fólksfjölgun á vinnumarkaði og eftirspurn eftir vinnuafli minnkað sem bendir til þess að vinnumarkaðurinn sé að færast nær jafnvægi eftir tímabil mikillar spennu,“ segir í spánni.

Fram kemur að verg landsframleiðsla hafi dregist saman um 0,7% á síðasta ári. Í ár eru horfur á að hagvöxtur verði 2,2% og að hann verði drifinn áfram af innlendri eftirspurn. Árið 2026 er reiknað með að verg landsframleiðsla aukist um 2,5%.

Þá kemur fram að horfur séu á að einkaneysla aukist um 3,1% í ár en hún jókst á fyrsta fjórðungi 2025.

„Sterk fjárhagsstaða heimila, aukinn kaupmáttur og minnkandi fjármagnskostnaður munu styðja við einkaneyslu á spátímanum. Reiknað er með að samneysla vaxi um 1,6% í ár en næstu ár er gert ráð fyrir heldur hægari vexti eða 1,1% árið 2026,“ segir í spánni.

Fram kemur að óvissa hafi aukist um horfur vegna viðskiptastríðs og ófriðar í Mið-Austurlöndum.

til baka