Kaffistofan er sérkaffihús í miðbæ Akureyrar. Þar er að finna ódýrasta kaffibolla bæjarins að sögn Ármanns Atla Eiríkssonar, framkvæmdastjóra og eiganda Kaffistofunnar.
Hann segir ákveðinn markhóp hafa gleymst hjá öðrum kaffihúsum í bænum: „Fólk sem vill bara fá mjög gott kaffi og er ekkert endilega að pæla í því að sitja í tvo tíma. Þá er hægt að leggja meiri áherslu á vöruna sjálfa en þjónustuna í kringum hana,“ segir hann í samtali við blaðamann.
„Þótt við séum með fjórum til fimm sinnum dýrara hráefni erum við samt að bjóða upp á ódýrasta kaffibollann á Akureyri, það höfum við gert með því að vera í litlu húsnæði,“ segir hann.
Kaffi ekki ósvipað víni
Kaffistofan selur sérkaffi, eða þriðju bylgju kaffi, þar er mikilvægast að geta rakið uppruna kaffisins. Baunirnar eru töluvert dýrari en hið hefðbundna kaffi en þær eru keyptar beint af bændum.
Ármann segir kaffi ekki ósvipað víni, hægt sé að fá baunir frá mismunandi héruðum, af mismunandi þrúgum og ræktaðar í mismunandi hæð.
Mest selur Ármann af uppáhelltu kaffi, svokölluðu V60. Vinsælasta kaffið núna segir hann vera frá Yirgacheffe-svæðinu í sunnanverðri Eþíópíu. „Eþíópían er oftast aðeins léttari, meiri sýra, ávextir, blóm og te. Þetta er ekkert voðalega líkt kaffi sem fólk kannast við en um leið og fólk prófar það fattar það að kaffi er ekki bara kaffi.“
Ármann segist ekki skilgreina sig sem hipster, meiningin með kaffihúsinu hafi ekki endilega verið að koma með hipster-menningu til Akureyrar. „En ég stend hérna vaktina allan daginn og ég sé alveg slatta af hipsterum,“ segir hann.
Kaffiáhugi Ármanns kviknaði í Menntaskólanum á Akureyri þegar hann drakk mikið af orkudrykkjum. Í heilsuáfanga í skólanum hafi kennarinn talað um skaðleg áhrif þeirra. „Það virkaði á mig þannig að ég fór að stúdera kaffi í staðinn,“ segir Ármann.
Seldi kvöldkaffi úr vagni
Kaffirekstur Ármanns byrjaði sumarið 2020 þegar hann seldi kaffi úr vagni eftir vinnu, frá fimm til tíu á kvöldin, mest á KA-svæðinu en flakkaði líka um. Vagninn pantaði hann frá Kína og kallaði Kaffipressuna.
Ármann segir það hafa komið á óvart hvað hann seldi mikið á þessum tíma. Kvöldkaffidrykkja fólks virðist þó fara minnkandi. „Núna ef fólk kaupir kaffi eftir þrjú eða fjögur er það oftast einfaldur eða koffínlaust. Árið 2020, ég veit ekki hvort það hafi verið COVID eða eitthvað, var fólk opnara fyrir því að fá sér kaffibolla eftir fimm.”
Veltan á vagninum var þó ekki mikil. „En þetta var skemmtilegt hobbí og góð saga og reynsla.“
Ármann segir rekstrarmódelið byggjast að miklu leyti á því að vera í litlu rými. „Ég var búinn að láta hanna fyrir mig 20 feta gám sem var innréttaður sem kaffihús. Ástæðan var sú að það er eitthvað til sem heitir torgsöluleyfi. Þá getur þú fengið langtímaleigusvæði á einhvern 200.000 kall á ári og þá er hægt að komast hjá stærsta rekstrarkostnaðinum sem er oftast leiga.“
Árið 2024 fékk Ármann tækifæri til að færa rekstur Kaffipressunnar í Brekkugötu 5 í miðbæ Akureyrar. Þá hóf hann samstarf við Sverri Berg sem átti Kaffistofuna, kaffibrennslu í Hafnarfirði. Í byrjun árs keypti Ármann kaffibrennsluna Kaffistofuna og tók upp nafnið. Hann segir reksturinn ganga ágætlega, með kaffibrennslunni komi nýtt tekjustreymi, til dæmis með áskriftarkerfi á kaffi, sem geri reksturinn stöðugan.