mán. 7. júlí 2025 13:30
Mikill þrýstingur er á Jerome Powell seðlabankastjóra Bandaríkjanna að lækka stýrivexti.
Halli á ríkisfjármálum fari vaxandi

Ríkisfjármál bæði í Evrópu og Bandaríkjunum eru undir vaxandi þrýstingi vegna halla og skulda. Í Evrópu skortir pólitískan vilja til að draga úr félagslegum útgjöldum þrátt fyrir að útgjöld (t.d. til varnarmála) séu að aukast, og því leyfa stjórnvöld hallanum að vaxa að hluta. Skuldir margra Evrópuríkja eru orðnar svo miklar að vaxtagreiðslur af þeim taka til sín sífellt stærri skerf af opinberum fjármunum og þrengja þannig að nauðsynlegri þjónustu og framtíðarfjárfestingu.

Í Bandaríkjunum er fjárlagahallinn nú yfir 6% af landsframleiðslu og gæti enn aukist. Þrátt fyrir tilraunir til að hemja hallann (með skattalækkunum án niðurskurðar) hefur hann ekki minnkað, enda þykja umsvifamiklar niðurskurðaraðgerðir ólíklegar. Bandarísk stjórnvöld munu því líkast til láta halla og skuldir vaxa áfram næstu misseri.

Bandaríkin hafa hingað til getað fjármagnað hallann með erlendu fjármagni, en nú sýna erlendir aðilar aukna varfærni gagnvart bandarískum skuldum. Þetta eykur líkur á hærri langtímavöxtum vestra og getur hrundið af stað vítahring aukins vaxtakostnaðar, niðurskurðar og hagstöðnunar sem erfitt væri að snúa við, einkum í Bandaríkjunum. Að endingu gæti ofvaxinn skuldavandi leitt til niðurskurðar á opinberri þjónustu eða aukinnar verðbólgu sem bitnar á almenningi í formi lakari þjónustu og rýrnandi kaupmáttar.

Stóraukinn hallarekstur

Jón Bjarki Bentsson aðalhagfræðingur Íslandsbanka bendir á að halli á ríkisfjármálum fari vaxandi, bæði í Evrópu og Bandaríkjunum. Bandaríkin standi frammi fyrir stórauknum hallarekstri vegna skattalækkana og útgjalda til varnarmála. „Það er verið að innleiða stórar aðgerðir á borð við Big Beautiful Bill sem líklega mun auka halla ríkissjóðs verulega.“

Þrátt fyrir að Bandaríkin geti enn fjármagnað skuldir sínar með útgáfu ríkisskuldabréfa á hagstæðum kjörum eru að mati Jóns Bjarka komin fyrstu merki um að fjárfestar séu að missa þolinmæðina. „Við sjáum að ávöxtunarkrafa á bandarísk ríkisskuldabréf hefur hækkað og að fjármagn er í auknum mæli sett í öruggari skjól.“

Í Evrópu er þróunin svipuð. Þar eru útgjöld til varnarmála að aukast og ríkin jafnframt að auka fjárfestingar í orkuöryggi. „Við sjáum ákveðna tilhneigingu til þess að slakað sé á ríkisfjármálaaga og það getur haft áhrif til skemmri tíma,“ segir Jón Bjarki.

Þrátt fyrir alla þessa óvissu halda fjárfestar áfram að líta til ríkisskuldabréfa og dollara sem öruggs skjóls. „Venjulega eykst eftirspurn eftir slíkum eignum þegar óvissan eykst, en nú hefur það ekki gerst í sama mæli og áður.“

Spurður um ríkisfjármálin segir Hafsteinn Hauksson aðalhagfræðingur Kviku að hann hafi meiri áhyggjur af þróuninni í Bandaríkjunum en Evrópu. „Bandaríkin hafa þegar rekið sig með miklum halla og nú er verið að auka hann með breyttum fjárlögum,“ segir hann og bendir á að það sé gert á sama tíma og grafið sé undan sjálfstæði seðlabankans með ítrekuðum árásum á seðlabankastjórann Jerome Powell. Þetta dragi úr tiltrú á bæði lánshæfi bandaríska ríkisins og á bandaríkjadollara.

„Lengri vextir á bandarískum skuldabréfum hafa hækkað og dollarinn veikst. Markaðirnir eru farnir að efast um gæði bandarískra ríkisskuldabréfa.“

Evrópa standi betur að vígi. Þar hafi mörg ríki nýtt síðasta áratuginn til að draga úr skuldsetningu og hafi því svigrúm til aukinnar fjárfestingar og tilrauna til að styrkja samkeppnishæfni. „Við sjáum aukna áherslu á fjárfestingar í varnarmálum og innviðum og að einfalda regluverk fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki, það gæti borið árangur til lengri tíma.“

Lesa má umfjöllunina í heild sinni í ViðskiptaMogganum.

til baka