lau. 5. júlí 2025 11:00
Langborðið Nóg verður um mat og drykk á hátíðinni sem hefst klukkan 14:00 í dag.
Ekkert formlegt, bara gaman

Það verður sannkölluð veisla í miðbæ Reykjavíkur í dag þegar matarhátíðin Langborð á Laugavegi fer fram í fimmta sinn. Þar sameina Vínstúkan Tíu sopar, Public House og Sümac krafta sína og bjóða upp á fjölbreytt úrval af mat og drykk undir berum himni. Vínstofan Tíu sopar sér um drykkina en Public house og Sümac bera matinn á borð.

https://www.mbl.is/matur/frettir/2025/07/04/hid_romada_langbord_a_laugavegi_verdur_dukad_upp_a_/

https://www.mbl.is/matur/frettir/2023/07/08/karnival_stemning_a_laugaveginum_undir_berum_himni/

„Það er engin eiginleg dagskrá þarna, við erum í rauninni bara að skapa vettvang fyrir fólk til að hittast, deila máltíð og spjalla saman,“ segir Ólafur Örn Steinunnar Ólafsson, einn skipuleggjenda hátíðarinnar, í samtali við Morgunblaðið.

Ólafur segir hátíðina hafa byrjað sem samstarfsverkefni staðanna í kjölfar neikvæðrar umræðu um göngugötur í miðbænum. „Við vildum bara sýna að það væri hægt að hafa gaman.“

Ekki þarf að panta borð eða taka frá sæti að sögn Ólafs. „Það er ekkert formlegt í þessu,“ segir hann.

Langborðið sem er notað við hátíðahöldin er 50 metra langt og því nóg pláss fyrir alla sem vilja gera vel við sig í mat og dykk í miðbænum.

Ólafur segir seinustu ár hafa gengið vonum framar og er spenntur fyrir deginum og framhaldinu. „Þetta hefur heppnast það vel að við höldum þessu áfram ár eftir ár,“ segir Ólafur. „Ég held því fram, í allri auðmýkt, að þetta sé að verða einn af viðburðum miðbæjarins: það er Menningarnótt, pride og langborðið,“ bætir hann við.

Hátíðin hefst klukkan 14 í dag og fer fram á Laugavegi, milli Klapparstígs og Vatnsstígs, og hvetur Ólafur alla til að mæta.

til baka