Eftirlitsmenn á vegum Fiskistofu fundu fjórtán ólögleg net skammt vestan við Austari–Héraðsvötn í Skagafirði, fyrr í vikunni. Málið var tilkynnt til lögreglu sem gerði afla og veiðarfæri upptæk.
Fjórtán sjóbirtingar voru í netunum, fjórar bleikjur og tvær langvíur. í frétt á heimasíðu Fiskistofu segir að netin hafi verið ólögleg hvað varðaði staðsetningu, möskvastærð, lengd og merkingar.
Þrátt fyrir að netin hafi verið ómerkt náðu eftirlitsmenn Fiskistofu á eigendur netanna og tilkynntu málið til lögreglu, eins og fyrr segir. Netin voru rétt utan við Garðssands í Skagafirði. Í frétt Fiskistofu um málið segir:
„Alls voru netin 14 talsins en nokkur þeirra voru innan 2000 metra frá ósum Austari-Héraðsvatna. Samkvæmt 15. grein laga um lax- og silungsveiði má aldrei leggja net né hafa ádrátt í sjó nær en 2.000 metra, gangi lax í straumvatn.
Við mælingar eftirlitsmanna kom einnig í ljós að möskvar netanna voru 10,6 cm. Samkvæmt 4. grein reglugerðar um búnað og frágang neta vegna veiða göngusilungs í sjó, er hámarksstærð möskva silungsveiðineta 8 cm.
Flest netanna voru bundin tvö og tvö saman en ein trossan samanstóð þó úr þremur netum og var því samtals 72 metrar á lengdina. Samkvæmt 2. grein reglugerðarinnar skal lengd nets ekki vera meiri en 50 metrar.
Að lokum var staðfest að netin voru ómerkt en samkvæmt 6. grein framangreindrar reglugerðar skal net vera merkt í báða enda með bauju ásamt nafni og lögbýli/heimilisfangi þess sem hefur umræddan veiðirétt.
Ljóst var því að netin voru ólögleg hvað varðaði staðsetningu, möskvastærð, lengd og merkingar.
Eftirlitsmenn Fiskistofu náðu á eigendur netanna og var brotið jafnframt tilkynnt til lögreglu, sem gerði aflann og veiðarfærin upptæk. Við upptöku netanna fundust 14 sjóbirtingar, fjórar bleikjur og tvær langvíur.
Fiskistofa vil því nota tækifærið og ítreka að laxveiðar í sjó eru bannaðar með öllu, samanber 14. grein laga um lax- og silungsveiði.“