Stjórnarformanni og forstjóra Kviku banka hf. barst eftir lokun markaða í dag uppfærð erindi frá Arion banka hf. og Íslandsbanka hf. þar sem félögin ítrekuðu ósk um samrunaviðræður. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.
Í tilkynningunni segir að stjórn Kviku banka muni taka bæði erindi til umræðu og ákveða næstu skref af hálfu bankans. Nánar verður upplýst um framvindu þegar ástæða er til og í samræmi við lögbundna upplýsingaskyldu bankans.
Bæði Arion banki og Íslandsbanki lýstu yfir vilja til að sameinast Kviku banka í lok maí. Arion lagði fram formlegt samrunatilboð þann 27. maí og Íslandsbanki í kjölfarið þann 28. maí. Kvika hafnaði báðum tilboðum 13. júní með þeim rökum að þau endurspegluðu ekki raunvirði félagsins. Bankinn útilokaði þó ekki viðræður síðar ef forsendur breytast.
Vb.is greindi frá því í dag að blaðið hafi heimildir fyrir því að Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion, hafi mætt upp í höfuðstöðvar Kviku í dag og fundað með Ármanni Þorvaldssyni, forstjóra Kviku.