fös. 4. júlí 2025 22:25
Þrír af hnúðlöxunum sem Sævar Þór og félagar veiddu á örskotsstundu í Haukadalsá í kvöld. Þeir sáu torfu hnúðlaxa neðarlega í ánni. Þeir létu vita og heimamenn eru að gera ráðstafanir.
Hnúðlax hellist inn í Haukadalsá

Veiðimenn sem eru við veiðar í Haukadalsá rákust á hnúðlaxatorfu sem var að ganga inn í ána í töluverðu magni. Þeir köstuðu fyrir torfuna, fjórum sinnum og lönduðu jafn mörgum hnúðlöxum. Sævar Þór Jónsson er einn þeirra sem sá hnúðlaxatorfuna. „Þetta var mikið magn af fiski og ég veit ekki hvort þetta voru tíu hnúðlaxar eða tuttugu eða jafnvel fleiri. Við létum vita af þessu,“ sagði Sævar í samtali við Sporðaköst.

Eftir því sem næst verður komist var kallaður út mannskapur til að meta stöðuna og reyna að fanga sem flesta hnúðlaxa.

 

 

Nú er hnúðlaxaár og viðbúið að vart verði við þennan nýbúa á fjölmörgum stöðum. Hafrannsóknastofnun hefur hvatt til þess að menn skrái þessa fiska sem veiðast, þannig að áreiðanlegar upplýsingar fáist um fjölda og dreifingu. Þá er ráðlegt að hafa samband við Hafró og kanna hvort þeir hafi áhuga á fiskum til rannsókna.

Hnúðlaxar ganga í ár á tveggja ára fresti og er að á oddatöluári. Síðast varð þeirra vart í töluverðu magni hér á landi, sumarið 2023. Hnúðlaxinn er byrjaður að veiðast fyrir nokkru, bæði í Noregi og í Finnlandi.

Sporðaköst hafa áhuga á að heyra af því ef hnúðlax veiðist. 

til baka