Héraðsdómur Reykjavíkur kvað upp dóm í dag sem sneri að bloggaranum og fyrrum blaðamanninum Páli Vilhjálmssyni. Páll var sýknaður fyrir dómi.
Páll var ákærður fyrir brot gegn 233. gr. a. í almennum hegningarlögum með skrifum sínum um Samtökin 78.
Málið vakti talsverða athygli þar sem kjarni þess laut að mörkum tjáningarfrelsis og verndunar minnihlutahópa. Ákæran laut að tveimur tilteknum efnisgreinum úr bloggfærslu. Þar voru Samtökin 78 meðal annars sögð standa fyrir „tælingu barna“ og að kennsluefni þeirra væri „tæling dulbúin sem upplýsingar“.
Ákært var fyrir eftirfarandi tvær efnisgreinar í bloggfærslunni.
„Samtökin 78 eru regnhlífarsamtök og lífsskoðunarfélag fullorðinna sem áhugasamir eru um klám, kynlíf, kynjaveröld og tælingu barna“.
„Kennsluefnið er tæling dulbúin sem upplýsingar. Meðfædd blygðunarsemi barna er skipulega brotin niður. Börn eru gerð móttækileg fyrir þátttöku í kynlífi og það jafnvel ofbeldiskynlífi (BDSM). Börn eru gerð efins um eigin sjálfsmynd og talin trú um að þau séu mögulega fædd í röngu kyni. Ringluð börn og óörugg eru síður í stakk búin að veita viðnám fullorðnum með eitthvað misjafnt í huga. Út á það gengur tælingin“.
Páll segir í bloggfærslu að nú komi í ljós staða tjáningarfrelsis á Íslandi. Páll spyr síðan hvort eðlilegt sé að lögregla og ákæruvald skipti sér af frjálsum skoðanaskiptum á Íslandi.