Ferðamenn við Brúará höfðu ekkert heyrt af banaslysunum sem þar hafa orðið síðustu ár, er blaðamaður ræddi við þá fyrir skömmu.
Sá ljósmyndir á Instagram
Þýsku Knape-mæðgurnar frá borginni Munchen voru staddar á bílastæðinu við Laugarvatnsveg eftir að hafa gengið upp að Brúarfossi og til baka.
Brúará er ekki hluti af auglýstum ferðamannastöðum. Spurð hvernig þær fréttu af svæðinu sagðist móðirin, Anke Knape, hafa lesið um það í ferðamannabæklingi og séð fallegar ljósmyndir á Instagram.
Hvernig var gangan meðfram ánni?
„Þetta var frábært. Þrír fossar og ekkert of mikið af fólki. Á brúnni við Brúarfoss var aðeins fleira fólk, líklega út af bílastæðinu sem er þar,” sagði móðirin, Anke Knape.
Best að taka ekki myndir í klettum
Spurð sagðist hún ekki hafa lent í neinni hættu. „Nei, ef þú horfir bara venjulega í kringum þig og ert ekkert að klifra í einhverjum klettum til að taka myndir, þá er þetta ekkert hættulegt.”
Hún kvaðst ekki hafa heyrt af banaslysinu sem varð í byrjun júní þegar ferðamaður féll í ána en sagðist hafa séð þrjú til fjögur skilti þar sem varað var við hættum.
Fengu upplýsingar frá bílstjóranum
Pólverjarnir Pavo Bronca og Sylvia sögðust ætla að dvelja á Íslandi í eina viku. Þau ákváðu að heimsækja Brúará til að sjá fallega náttúruna og fossana. Bílstjórinn þeirra sagði þeim frá svæðinu.
Þau sögðust ekkert hafa heyrt af banaslysum á svæðinu en nefndu að þau hefðu séð tvö upplýsingaskilti sem vöruðu við hættum.