Það er skammt á milli stórviðburðanna á íþróttasviðinu þessa dagana og aðeins nokkrum dögum eftir að Evrópumótið í knattspyrnu hófst í Sviss er komið að öðrum ekki síðri viðburði, sjálfum Frakklandshjólreiðunum. Heilar þrjár vikur af stærsta árlega íþróttaviðburði heims þar sem allir helstu hjólreiðamenn heims eru mættir til að láta að sér kveða, hvort sem það er í heildarkeppninni eða til að næla sér í sigur á stökum dagleiðum.
En hverju á að fylgjast með í ár? Eru einhverjir sérstakir áfangar eða met sem gætu fallið? Af hverju verður lokadagleiðin í París öðruvísi en venjulega? Hvernig getur það verið að það séu allskonar sigurvegarar í keppninni og af hverju eru lið þegar um einstaklingskeppni er að ræða? Við köfum ofan í allt þetta og meira til hér í þessari umfjöllun sem vonandi verður inngangur fyrir þá sem lítið þekkja til og nánari skýring fyrir þá sem þegar fylgjast með hjólreiðum.
Frakklandshjólreiðarnar (Le Tour á frönsku og Tour de France á ensku) eru einn stærsti íþróttaviðburður heims og sá stærsti sem er haldinn árlega. Hann er þó ólíkur mörgum viðburðum sem eru bara einn leikur þar sem túrinn tekur samtals 23 daga, þar af 21 hjóladag. Fá hjólararnir því tvo hvíldardaga inn á milli.
https://www.mbl.is/sport/frettir/2024/07/19/stadfestir_otrulega_yfirburdi_sina/
Mörg hundruð milljónir fylgjast með
Mörg hundruð milljón manns fylgjast með keppninni í sjónvarpi yfir þessar þrjár vikur og milljónir mæta við vegi og götur víðsvegar um Frakkland. Undanfarin ár hefur keppnin reglulega hafist í öðrum nærliggjandi löndum eða farið að hluta yfir til annarra landa.
Í ár verður hins vegar ekkert um slíkt, en upphafsáfanginn fer núna fram í Lille í norðurhluta landsins, rétt við landamærin að Belgíu. Leggja keppendur af stað í dag klukkan 11:10.
Þaðan er haldið yfir til Normandí og Brittaní áður en hersingin heldur suður á bóginn í átt að franska miðhálendinu þar sem ein fjalladagleið er tekin. „Fyrsta vikan“ er í heild 10 dagar áður en komið er að fyrsta hvíldardeginum með akstursdegi yfir til Toulouse, en önnur vikan, keppnisdagar 11 til 15, fara fram í eða við Pýrenafjöllin.
Annar hvíldardagurinn er svo notaður til að koma sér yfir til Montpellier á frönsku ríverunni. Þaðan er farið upp í fjöllin ofan Blástrandarinnar (Cote d‘Azur) á leiðinni í Alpana þar sem síðasta vikan er háð. Að lokum er svo flogið til Parísar þar sem síðasti dagurinn er tekinn venju samkvæmt með Sigurbogann og Eiffel-turninn í bakgrunni.
Í ár verður þó aðeins brugðið út af venjunni og notast við svipaða leið og á lokakaflanum á Ólympíuleikunum í fyrra. Þá var meðal annars hjólað um Montmartre hverfið á hellusteinum og upp nokkuð bratt klifur að Sacré-Cœur kirkjunni. Er sú leið einstaklega myndræn og falleg, en keppendur hafa þó lýst áhyggjum sínum af þessari leið og talið hana hættulegri en hefðbundna endasprettinn á flatri braut við Sigurbogann.
Meirihlutinn ekki mættur til að keppa til sigurs
Yfir þennan 21 dag verða samtals hjólaðir 3.338 km og klifrað upp samtals 51.550 metra hækkun. Það jafngildir eins og tveimur og hálfum hring í kringum landið og að fara upp á Hvannadalshnúk 24 sinnum.
Samtals taka 23 lið þátt í keppninni, en í hverju liði eru 8 keppendur. Heildarfjöldi keppenda er því 184. Ekki er þar með sagt að þeir séu allir að keppa til sigurs, heldur er meirihluti þeirra mættur til að aðstoða og styðja við kannski einn eða tvo leiðtoga hvers liðs. Fer það eftir getu og styrkleika hvers liðs hvaða áherslur þau hafa og hvort þau setji áherslu á heildarkeppnina, stakar dagleiðir eða aðrar keppnir innan Frakklandshjólreiðanna.
Uppbyggingu keppninnar og helstu atriðum hennar eru einnig gerð góð skil í meðfylgjandi myndskeiði.
Fjöldi keppna innan aðalkeppninnar
Flestir þekkja til gulu treyjunnar þegar kemur að Frakklandshjólreiðunum. Sá sem er í forystu í heildarkeppninni (e. general classification) klæðist henni hverju sinni og sá sem er í henni að lokinni síðustu dagleiðinni stendur uppi sem sigurvegari í heildarkeppninni. Þetta er þó alls ekki eina keppnin innan Frakklandshjólreiðanna hverju sinni og gerir það að verkum að það er spenna og keppni í gangi allan tímann, jafnvel þótt að einn keppandi sé kannski öruggur í gulu treyjunni.
Í fyrsta lagi er hver dagleið sér keppni og færir slíkur sigur viðkomandi hjólreiðamanni mikla virðingu. Þetta fyrirkomulag getur valdið því að á ákveðnum dagleiðum eru keppendur í heildarkeppninni rólegir á meðan aðrir hjólreiðamenn eru að berjast um sigur í stakri dagleið.
Til viðbótar er svo sér keppni fyrir sprettarana, en það er græna treyjan svokallaða. Þar safna keppendur stigum fyrir að vera fyrstir í mark í sprettdagleiðum (flötum dagleiðum) og að vera fyrstir á fyrirfram ákveðnum stöðum á miðjum dagleiðum. Hristir þetta oft aðeins upp í dagleiðum sem annars gætu verið minna spennandi.
Svo er rauðdoppótt treyja fyrir besta klifrarann og hvít treyja fyrir besta unga keppandann í heildarkeppninni. Einnig eru útnefndir bestu árásarhjólreiðamennirnir eftir hverja dagleið, en það eru þá oftast þeir sem reyna að slíta sig frá aðalhópnum (f. peloton) og eru í fámennari fremsta hóp (e. break) stóran hluta dagleiðarinnar, eða ná jafnvel að sigra dagleiðina með slíkri árás.
Tveir á toppnum
Tvær helstu stórstjörnur í ár eru Slóveninn Tadej Pogacar sem keppir fyrir Team UAE og Daninn Jonas Vingegaard sem keppir fyrir Team Visma Lease a bike. Þeir hafa barist um gulu treyjuna undanfarin ár, en Pogacar hefur staðið uppi sem sigurvegari árin 2020, 2021 og 2024 á meðan Vingegaard var sigurvegar 2022 og 2023.
Að flestra mati er Pogacar besti hjólreiðamaður heims í dag, en hann hefur það yfir Vingegaard að keppa í mjög fjölbreyttum keppnum. Hefur hann meðal annars sigrað eða verið að berjast um sigur í fjölda eins dags keppnum, jafnvel keppnum þar sem fjöldægrakeppendur eru alla jafna ekki meðal efstu manna. Er hann gríðarlega góður að klifra langar vegalengdir í Ölpunum, í tímatöku og svo einnig í styttri sprettum, en þá sérstaklega þegar endirinn er aðeins upp á við.
Vingegaard hefur hins vegar haft það helst fram yfir Pogacar þau ár sem hann sigraði að vera betri í hæstu fjöllunum, en í túrnum er oft farið vel yfir 2.000 metra og jafnvel upp í um 2.500 metra á hæstu dagleiðunum.
Þar sem Vingegaard leggur alla áherslu á Frakklandshjólreiðarnar yfir árið hefur hann meiri tíma meðal annars í hæðaræfingar og að stilla sig inn á að vera í sem allra besta forminu nákvæmlega í júlí meðan Pogacar byrjar sitt tímabil í febrúar og er að keppa af og á fram að túrnum. Er slíkt mjög óalgengt meðal þeirra sem hafa verið að keppa um gulu treyjuna síðustu tvo áratugina þar sem keppendur hafa jafnan orðið mun sérhæfðari.
Óvænt tímataka Vingegaard en Pogacar sterkari í heildina
Í nýlegri eins vikna keppni, Critérium de Dauphiné, sem oft er talin vera helsta upphitunarkeppnin fyrir Frakklandshjólreiðarnar, sýndi Pogacar hversu megnugur hann er og rústaði öðrum keppendum, þar á meðal Vingegaard í fjalladagleiðunum. Telja margir að það hafi verið forsmekkurinn af því sem koma skuli í Frakklandshjólreiðunum og að hann sé í sínu allra besta formi. Stuðlar veðbanka gefa þetta einnig í skyn, en þar eru taldar 60-70% líkur á að hann standi uppi sem sigurvegari.
Vingegaard átti hins vegar óvænt mjög góða tímatöku í þessari sömu keppni. Í ár eru tvær tímatökudagleiðir og því gæti hann mögulega strítt Pogacar aðeins á þeim dögum, en þess ber þó að geta að Pogacar er áfram með bestu tímatökumönnum heims.
Lítið er um stór met eða áfanga sem talið er að geti fallið í keppninni í ár, en eins og þekkt er orðið tókst breska sprettaranum Mark Cavendish í fyrra að sigra sína 35. dagleið í Frakklandshjólreiðunum, fleiri en nokkrum öðrum hefur tekist í gegnum tíðina. Helst er fólk spennt að sjá hvort það verði Pogacar sem næli sér í fjórða titilinn eða hvort Vingegaard takist að gera keppnina mjög spennandi í ár.
https://www.mbl.is/sport/frettir/2024/07/03/soguleg_stund_i_frakklandshjolreidunum/
Aðrir spámenn
Fyrir utan þá Vingegaard og Pogacar eru það helst Belginn Remco Evenepoel hjá Soudal Quick-Step og Slóveninn Primoz Roglic hjá Red Bull Bora Hansgrohe sem taldir eru líklegir til afreka. Roglic var upp á sitt besta árið 2020 og rétt missti gulu treyjuna þá til Pogacar í tímatöku á næst síðasta degi. Hefur hann síðan reynt að landa sigri í heildarkeppninni án árangurs og hefur ekki náð sömu hæðum og hinir tveir. Hann er þó þekktur fyrir góða tímatöku og fyrir mjög öfluga styttri spretti í lokin á löngum fjalladögum.
Evenepoel er hins vegar besti tímatökumaður heims, en hefur átt erfitt með að halda í Vingegaard og Pogacar í mestu klifrunum auk þess að tapa stundum sekúndum hér og þar á móti þeim.
Liðin skipta líka máli og margt getur gerst
Það má heldur ekki gleyma því að í þriggja vikna keppni getur margt gerst. Ekki er óalgengt að nokkrir keppendur detti út vegna veikinda eða eftir meiðsl í kjölfar slysa. Það er ekki auðvelt að halda sínu allra besta formi í heilar þrjár vikur án þess að sýna nein veikleikamerki.
Svo þarf að hafa í huga liðin sem eru á bak við þessar stórstjörnur. Hjólreiðar eru nefnilega frekar furðuleg íþróttagrein þar sem að í grunninn er um að ræða liðsíþrótt. Samt sem áður er bara einn sigurvegari frekar en allt liðið eins og er í flestum boltaíþróttum. Í staðinn er liðið í raun að vinna fyrir þennan eina leiðtoga, meðal annars með því að passa upp á að loka árásum annarra liða, halda jöfnu tempói yfir daginn eða setja upp árásir t.d. á klifurdagleiðum.
Með því að hjóla fyrir framan leiðtoga liðsins er líka búið til skjól fyrir hann, en með því að hjóla í kjölsogi annarra á þeim mikla hraða sem hjólað er á er hægt að spara allt að 30% orku yfir dagleiðina. Gagnast það vel í lokasprett eða bara til að vera með nægjanlega mikla orku á síðari hluta keppninnar.
Þá er það líka hlutverk liðsfélaganna að sækja drykki og næringu í liðsbílinn og koma til leiðtogans og allskonar önnur verkefni til að minnka álag á helstu stjörnuna.
Stilla bæði upp gríðarlega sterkum liðum
Bæði UAE og Visma eru með gríðarlega öflug lið þetta árið og er erfitt að segja hvort þeirra geti stutt betur við þá Vingegaard og Pogacar. Á pappír er líklega Visma örlítið framar, en liðið er meðal annars með Simon Yates sem sigraði heildarkeppnina í Ítalíuhjólreiðunum fyrr á þessu ári. Hins vegar getur þreyta eftir það setið í mönnum, en alla jafna ætti ahnn að vera sterkur aðstoðarmaður í fjöllunum fyrir Vingegaard ásamt Sepp Kuss og Matteo Jorgenson.
UAE eru hins vegar með þá Adam Yates (bróðir Simon), Joao Almeida og Marc Soler sem allir ættu einnig að vera sterkir í fjöllunum, en spurning hvort þeir séu jafn öflugir og þremenningarnir hjá Visma. Að lokum er Visma með ólíkindatólið Wout van Aert sem á góðum degi er líklega einn fjölhæfasti og besti alhliða hjólreiðamaður heims og sýndi hann það hvað best í túrnum árið 2022. Hins vegar hefur hann undanfarið ekki alveg náð að sýna sitt besta, en það vita samt allir hversu öflugur hann getur verið.
Það má ekki gleyma spretturunum
Þegar kemur að sprettliðum er helst að nefna Alpecin Deceuninck og Lidl Trek, en einnig Intermarché Wanty og Soudal Quick-step. Alpecin er með þá Jasper Philipsen sem sprettara og Mathieu van der Poel. Meðan Philipsen er einn besti sprettari heims er van der Poel einn fjölhæfasti hjólari heims, en einnig gríðarlega sterkur þegar keppnisleiðin er hæðótt, en ekki fjalllend.
Lidl Trek er með Jonathan Milan og er líklegt að þeir Philipsen muni berjast hvað harðast um sprettdagleiðirnar. Til viðbótar koma þó líka þeir Eritríumaðurinn Biniam Girmay hjá Intermarché Wanty og Tim Merlier hjá Soudal, en Merlier líður þó fyrir það að liðið hans er aðallega að reyna að styðja Evenepoel í heildarkeppninni.
Líklegt er að mörg önnur lið muni helst reyna að sækja sigur í stökum dagleiðum, eða þá að eiga keppanda í 3-10 sæti í heildarkeppninni, eftir því hvernig þeim Roglic og Evenepoel gengur.
Ekki bara hjólreiðar - Ostar, vín og franska sveitin
Þó Frakklandshjólreiðarnar snúist auðvitað að mestu um hjólreiðar þá má í raun segja að keppnin sé einskonar „slow-tv“ sýning á Frakklandi á hverju ári, en gríðarlega mikið er lagt upp úr að gera útsendinguna sem flottasta og er fjöldi þyrla notaður á hverjum degi til að fá tignarleg og flott myndskot úr lofti sem sýna frönsku sveitirnar, bæina og allt þar á milli.
Fyrir þá sem vilja kynna sér betur keppnina og fylgjast með henni yfir næstu þrjár vikur er hægt að mæla með úrslitasíðunni Procycling sem jafnframt er með beina textalýsingu frá öllum dögum keppninnar.
Einnig er hægt að skoða nánar allar dagleiðirnar á vefnum Cyclingstage og fyrir þá allra forföllnustu er meira að segja hægt að taka þátt í Fantasy-leik um Frakklandshjólreiðarnar.
Að lokum geta matargæðingar notað Frakklandshjólreiðarnar til að kynnast betur franskri matarmenningu. Þannig er fjöldi vefsíða sem hefur tekið saman lista yfir frönsk vín og franska osta frá þeim héruðum sem farið er um, líkt og sjá má hér um ostana.