Tyrkneski klíkuforinginn Ismail Abdo, eða „jarðarberið“, sem sænsk og norsk löggæsluyfirvöld hafa lýst eftir alþjóðlega vegna afbrota hans í nágrannaríkjunum skandinavísku, var handtekinn við nítjánda mann í stóraðgerð tyrknesku lögreglunnar sem í nótt lét til skarar skríða gegn þremur glæpagengjum samtímis í fimm tyrkneskum borgum, Istanbul, Adana, Mersin Muğla og Antalya.
Þetta staðfestir sænska lögreglan við ríkisútvarpið þarlenda, SVT, en það er tyrkneska fréttastofan Anatolia sem segir frá aðgerðinni í Tyrklandi og hefur SVT það eftir Tomas Thorén fréttaritara sínum að upplýsingar sænskrar og norskrar lögreglu hafi komið tyrknesku lögreglunni til góða í aðgerð hennar.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/12/20/saensk_bolmenni_logdu_a_radin_um_drap/
Tyrkneska lögreglan staðfestir að hún hafi „sænskan mann“ í haldi sem „grunaður er um stórfelld fíkniefnabrot auk þess að hafa staðið á bak við gróf ofbeldisbrot“. Þær upplýsingar staðfesta þó ekki að þar sé um Ismail Abdo að ræða.
Einn aðalmanna í Foxtrot áður
Hann var á árum áður einn innsti koppur í búri sænsku glæpaklíkunnar Foxtrot, sem Rawa Majid, „kúrdíski refurinn“, stjórnar nú frá Tyrklandi. Eftir að slettist upp á vinskapinn milli þeirra hæstráðendanna stofnaði Abdo, sem gengur undir viðurnefninu „jarðarberið“ eða jordgubben í sænskum undirheimum, klíkuna Rumba og hafa þeir refurinn síðan troðið illsakir.
„Handtakan er uppskera hnitmiðaðs samstarfs sænskra og tyrkneskra löggæsluyfirvalda um langt skeið. Sænska lögreglan hefur lagt gjörva hönd á plóg við rannsóknarvinnu sem leiddi til handtökunnar,“ segir Mats Berggren, starfandi yfirmaður NOA, rannsóknardeildar sænsku lögreglunnar fyrir allt landið, sem sett var á fót árið 2015 í stað þáverandi embættis, Rikskriminalen.
Handtekinn í fyrra en sleppt
Tyrkneska lögreglan handtók Abdo í maílok í fyrra í bifreið með öðrum eftir að í ljós kom að skammbyssa var í bifreiðinni ásamt skotheldu vesti. Báðum var síðar sleppt úr haldi, Abdo gegn greiðslu 20.000 tyrkneskra líra, jafnvirði um 85.000 íslenskra króna, og var þar um hreina handvömm lögreglu að ræða þar sem henni sást yfir að „jarðarberið“ væri eftirlýst á alþjóðavettvangi af hálfu yfirvalda í Noregi og Svíþjóð auk þess að vera á lista alþjóðalögreglunnar Interpol yfir þá sem hana fýsti hve mest að koma böndum á.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2024/05/27/handtekinn_i_svithjod_en_sleppt/
Meðal þess sem Abdo er grunaður um í Svíþjóð er að standa á bak við innflutning 1,3 tonna af kókaíni sem sænska tollgæslan fann í fyrravor í Nynäshamn, en listinn yfir svívirðu hans gagnvart sænskum, og norskum, hegningarlögum er mun lengri.