fös. 4. júlí 2025 15:16
Síminn og Warner Bros. Discovery verða samstarfsaðilar.
Viðskiptavinir Símans fá fullan aðgang að HBO Max

Síminn verður samstarfsaðili Warner Bros. Discovery á Íslandi samkvæmt nýjum samningi sem undirritaður var í gær. Viðskiptavinir Símans fá aðgang að völdu efni HBO í Sjónvarpi Símans Premium auk fulls aðgangs að appi HBO Max.

Um er að ræða einn stærsta efniskaupasamning Símans til þessa.

„Þetta er sögulegur samningur og einstaklega ánægjulegt að Warner Bros. Discovery kjósi að vinna með Símanum hér á landi en við byggjum á traustum grunni samstarfs undanfarinna ára,“ er haft eftir Maríu Björk Einarsdóttur forstjóra Símans í tilkynningu frá Símanum.

„Innreið HBO Max á Íslandi er mikilvægur áfangi fyrir okkur á Norðurlöndum. Hún endurspeglar metnað okkar til að gera afþreyingu á heimsmælikvarða aðgengilega sífellt fleirum. Við erum sérstaklega ánægð að vinna með öflugum samstarfsaðila eins og Símanum, sem deilir áherslu okkar á vandað gæðaefni. Íslenskir áhorfendur geta hlakkað til að njóta hágæða streymisþjónustu sem sameinar efni frá HBO, Warner Bros. Pictures, Discovery, Eurosport og fleirum,“ er haft eftir Christina Sulebakk, framkvæmdastjóra Warner Bros. Discovery á Norðurlöndum, í tilkynningunni.

HBO Max er alþjóðleg streymisveita Warner Bros. Discovery sem inniheldur kvikmyndir og sjónvarpsþætti frá HBO, Warner Bros. Pictures, Max Originals, Discovery o.fl. Meðal kvikmynda og sjónvarpsþátta sem finna má á streymisveitunni eru: The Last of Us, Harry Potter, Game of Thrones, House of the Dragon, Succession, The White Lotus, Lord of the Rings, The Dark Night, Friends og Sex and the City.

Í tilkynningunni segir að samstarfið verði kynnt fyrir viðskiptavinum á komandi vikum.

til baka