Ásgeir Ingvarsson kafar ofan í fréttir af erlendum vettvangi í ViðskiptaMogganum á miðvikudögum.
Þegar ég var á þrítugsaldri dreymdi mig um að flytja til New York. Borgin er svo einstök: þar iðar allt af lífi, samfélagið á fleygiferð og á öllum tímum sólarhringsins er hægt að finna þar allt sem hugurinn girnist. Borgin getur verið svolítið subbuleg, og heimamenn svolítið hranalegir, en í New York er ómögulegt að láta sér leiðast og ný ævintýri bíða handan við hvert horn.
Nýlega renndi ég í gegnum nokkrar ævisögur bandarískra stórmenna og tók eftir því að allir virtust þeir hafa haft viðkomu í New York í lengri eða skemmri tíma, og virtist eins og öllum metnaði og sköpunargáfum Bandaríkjanna hefði verið þjappað þar saman á einn stað. Að hugsa sér bara hvernig það hefur verið að búa í borginni um miðja síðustu öld og geta átt von á að ganga fram á menn og konur á borð við James Baldwin, Ayn Rand, Allen Ginsberg, Duke Ellington, Miles Davis, Malcolm X og Leonard Bernstein!
Ég færði þetta í tal við einn vin minn og spurði hvaða borg gæti í dag mögulega jafnast á við New York um miðbik 20. aldar: þar sem allt er að gerast og allir vilja vera. New York í dag er nefnilega ekki svipur hjá sjón, og virðist hafa misst þann kraft sem borgin hafði hér áður fyrr og vera aðallega drifin áfram af skriðþunga þess sem á undan kom. Smitvarnaaðgerðir í kórónuveirufaraldrinum skemmdu mikið af því sem gerði New York að óviðjafnanlegri borg, og atvinnulífið hefur breyst svo að ekki er lengur sama þörfin fyrir að hópa verðbréfabröskurum, athafnafólki og listaspírum á einn stað. Fólk sem áður var bálskotið í New York og vildi hvergi annars staðar vera er núna smám saman farið að tínast í burtu, því að borgin er dýr og töfrarnir hafa dvínað.
Vinur minn sagði að kannski væri San Jose og byggðin þar í kring sá staður sem kemst næst New York þegar borgin var upp á sitt besta. Þar eru bandarísku tæknirisarnir með bækistöðvar sínar og þar er verið að móta framtíðina. Aðrir segja að straumurinn liggi til Austin, þar sem fólk og fyrirtæki geta notið tiltölulega hóflegra skatta og lítilla ríkisafskipta, og fengið heilmikil lífskjör fyrir peninginn. Enn aðrir benda á Miami þar sem allt er óðara að fyllast af fólki sem vill njóta frelsisins og góða veðursins suður í Flórída.
Ef öflugasta fólkið fer þá er ballið búið hjá New York. Það er drifkrafturinn í fólkinu og fyrirtækjunum sem hefur haldið borginni gangandi, þrátt fyrir takmarkalausa afskiptasemi kjörinna fulltrúa. Raunar hefur New York verið einstaklega óheppin með pólitíska leiðtoga og þá sjaldan sem repúblikanar hafa setið í borgarstjórastólnum hefur sáralítill munur verið á stjórnarháttum þeirra og demókratanna.
Nú stefnir allt í að Zohran Mamani verði næsti borgarstjóri New York, og næsta víst að með því fari þessi merkilega borg úr öskunni í eldinn.
Lítil reynsla en mikil vissa
Demókratar héldu nýlega prófkjör fyrir borgarstjórakosningarnar sem fara fram í nóvember. Mamdani sigraði með töluverðum yfirburðum en hann hlaut 43,5% atkvæða á meðan Andrew Cuomo – sem var borgarstjóri frá 2011 til 2021 – hreppti aðeins 36,4% atkvæða.
Er nær öruggt að Mamdani verði næsti borgarstjóri New York enda hallast borgarbúar mjög að Demókrataflokknum, og hlaut frambjóðandi demókrata 67% atkvæða í kosningunum 2021. Repúblikanar ætla að tefla fram sama manni og síðast, Curtis Sliwa, sem fékk tæplega 28% fylgi fyrir fjórum árum, en hann er eins langt til vinstri og repúblikani gæti mögulega verið.
Það er ekki lítið afrek hjá Mamdani að ná svona langt, hvað þá þegar haft er í huga að hann er ekki nema 33 ára gamall. Fyrir nokkrum vikum vissi varla nokkur maður hver Mamdani væri, en nú er hann á allra vörum og verður bráðum einn valdamesti stjórnmálamaður Bandaríkjanna.
Verst að þau stefnumál sem Mamdani vill koma til leiðar eru vanhugsuð og munu bara auka á vanda borgarinnar. Mamdani er nefnilega enginn venjulegur demókrati, heldur er hann alvöru sósíalisti af svipaðri gerð og Bernie Sanders.
Meðal þess sem Mamdani vill gera er að láta borgina reka matvöruverslanir, en þannig telur hann að megi lækka matvöruverð í borginni. Virðist margt benda til að Mamdani hafi aldrei á ævinni opnað kennslubók í hagfræði eða hagsögu.
Mamdani má eiga það að hann virkar hlýr og sjarmerandi. Hann myndast vel og er hinn prýðilegasti ræðumaður þó að hann tali bara í klisjum.
Foreldrar hans eru frá Indlandi – faðirinn múslimi og móðirin hindúi – en fjölskyldan bjó í Úganda þegar Mamdani kom í heiminn. Faðir Mamdanis fékk styrk til að mennta sig í Bandaríkjunum og er í dag prófessor í félagsvísindum við Columbia-háskóla, en móðir hans er leikstjóri og hlaut gullljónið 2001, fyrst kvenna, fyrir kvikmyndina Monsoon Wedding.
Mamdani var sjö ára gamall þegar fjölskyldan fluttist til Bandaríkjanna og ólst upp í einu af fínni hverfum Manhattan. Árið 2014 lauk hann bachelor-gráðu í Afríkufræðum frá litlum en mjög virtum háskóla í Maine, og árið 2018 fékk hann bandarískan ríkisborgararétt.
Mamdani er fjöltyngdur: talar bæði hindí, bengalí og spænsku, og á tímabili reyndi hann fyrir sér sem rappari undir listamannsnafninu Young Cardamomm. Árið 2015 fór Mamdani að verða virkur í stjórnmálum og árið 2020 sigraði hann naumlega í prófkjöri um sæti demókrata á ríkisþingi New York, en enginn repúblikani bauð sig fram á móti honum 2020, 2022 og 2024.
Er ekki annað að sjá en að Mamdani hafi sama sem enga reynslu úr atvinnulífinu.
Byrjað á röngum enda
Helstu stefnumálin koma í sjálfu sér ekki á óvart: Mamdani vill hækka skatta á fyrirtæki og gera skattana á hátekjufólk enn hærri. Eru skattarnir í New York nú þegar í hæstu hæðum, og þeir sem bera mestu byrðarnar líklegir til að fara að hugsa sér til hreyfings.
Þá vill Mamdani hækka lágmarkslaun upp í 30 dali á klukkustund, og verður gaman að heyra hann svara spurningum um hvað það mun þýða fyrir t.d. atvinnuhorfur ungra og ómenntaðra sem eru ekki 30 dala virði á vinnumarkaðinum. Væri líka gaman að spyrja Mamdani af hverju hann dregur mörkin við 30 dali, fyrst hægt er að bæta launakjör fólks með lagasetningu. Af hverju ekki 40 dali, 50, eða 100? Af hverju ekki gera alla íbúa borgarinnar ríka með því að setja í lög að lágmarkslaun verði milljón dollarar á ári? Hvað gæti mögulega farið úrskeiðis?
Mamdani vill jafnframt hafa frítt í strætó, bjóða fría barnapössun, frítt í menntaskóla og háskóla, og skattgreiðendur geta svo sem alveg gert þá kröfu miðað við hvað þeir borga til samneyslunnar. Hvort það verður framfaraskref fyrir samgöngu- og menntakerfi borgarinnar er svo annað mál.
Alvarlegast af öllu er hvernig Mamdani vill laga húsnæðisvanda New York. Það er rándýrt að leigja íbúð í borginni, en Mamdani virðist ekki átta sig á að afskipti og ófrelsi eru rót vandans. Í marga áratugi hafa pólitíkusar New York reynt að fá kjósendur á sitt band með loforðum um að handstýra leigumarkaðinum, setja bremsu á leiguverð og auka framboð á félagslegu húsnæði. Það eina sem þetta hefur gert er að snarminnka hvata markaðarins til að auka framboð á venjulegu húsnæði, og búa til tvískiptan markað: annars vegar eru þeir sem þurfa að borga uppsprengt markaðsverð, og hins vegar eru þeir sem ríghalda í verðstýrðar íbúðir kynslóð fram af kynslóð.
Mamdani vill að borgin byggi sjálf og leigi út 200.000 nýjar íbúðir, sem er betra en ekkert og myndi a.m.k. létta af einhverjum þrýstingi, en miklu skynsamlegra væri að leita allra leiða til að frelsa markaðinn; gera það auðveldara að byggja og breyta húsnæði í New York og þannig stuðla að því að framboð íbúða haldi í við eftirspurn.
Spennandi verður að sjá hvernig Mamdani útfærir síðan draum sinn um að borgin reki matvöruverslanir. Alls staðar þar sem sósíalistar hafa rekið matvörubúðir hefur útkoman verið gæða- og vöruskortur.
Mamdani má þó eiga það að í kosningabaráttunni hefur hann aðallega lagt áherslu á leiðir til að bæta lífskjör fólks, þótt ekki séu boðaðar lausnir góðar. Er þetta jákvæð breyting frá ofuráherslu demókrata á woke-pólitík, og ljóst að kjósendur eru móttækilegir enda hljómar sósíalisminn afskaplega vel á yfirborðinu.
Verði kjósendum í New York að góðu.