Mikil samstaða er á meðal landeigenda við Brúará við að gera svæðið hættuminna fyrir þann mikla fjölda ferðamanna sem þangað kemur.
Þrjú banaslys hafa orðið þar á síðustu árum, það síðasta í byrjun júní.
https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/05/banaslysin_ekki_vegna_ahaettuhegdunar/
Landeigendurnir eru sex talsins. Þrír eru austanmegin við ána en hinir þrír vestanmegin. Rúnar Gunnarsson á Efri-Reykjum er stærsti landeigandinn og er bær hans austanmegin við ána.
Landeigendurnir hafa meðal annars lagt veg vestanmegin við ána upp að Brúarfossi og var hann opnaður um páskana fyrir rúmum tveimur árum. Nýr stígur var sömuleiðis lagður frá bílastæðinu við Laugarvatnsveg upp að Hlauptungufossi, neðsta fossinum af þremur. Stígurinn var færður nokkra metra frá fyrri stíg, lengra frá ánni, til að gera gönguferðina öruggari, að sögn Rúnars.
„Þetta var þverhnípt á kafla og mjög varasamar aðstæður en það er búið að græja það svæði. Svæðið upp að Hlauptungufossi er orðið frekar gott,” greinir hann frá en nefnir að svæðið þar fyrir ofan sé hættulegra.
Erfitt sé að færa stíginn þar vegna þess að áin er niðurgrafin. Þess vegna hafi verið ákveðið á nýlegum fundi um bráðaaðgerðir á svæðinu að girða af hluta af hættulegustu stöðunum með staurum og böndum. Það standi til á næstu tveimur vikum. Öll þrjú banaslysin á síðustu árum hafi orðið við og á milli Hlauptungufoss og Miðfoss.
Áin er köld og hættuleg
Spurður segist Rúnari hafa brugðið er hann frétti af því í byrjun júní að ferðamaður hefði fallið í ána.
„Við fórum þrír af stað og vorum eiginlega fyrstir á staðinn af heimamönnum en björgunarsveitirnar voru ótrúlega snöggar líka og komu aðeins seinna, en áin er köld og verulega hættuleg upp á það að gera. Svo fór sem fór, því miður,” segir Gunnar, sem ræddi við blaðamann á bílastæðinu við Laugarvatnsveg.
Bílastæðið var yfirfullt af bílum og hópur fólks annað hvort á leið í gönguferð til að sjá fossana eða á leið til baka þaðan. Gangan upp eftir tekur um 40 til 60 mínútur að sögn Gunnars en leiðin er um fjögurra kílómetra löng.
„Það er ótrúlegur fjöldi af fólki sem fer hérna upp eftir, þannig að sem betur fer er þetta lítil prósenta en alltof margir sem hafa lent í ánni.”
Vilja tyggja upplýsingarnar ofan í fólk
Merkingum þar sem varað er við hættunni í kringum ána verður núna fjölgað á svæðinu. Eitt varúðarskilti er við bílastæðið við Laugarvatnsveg en blaðamaður sá ekkert slíkt við efra bílastæðið. Þó má nefna að bílstjórar eru varaðir við hættunni eftir að þeir hafa greitt bílastæðagjald á efra stæðinu í símum sínum. Ekkert gjald er tekið á neðra stæðinu við Laugarvatnsveg.
Blaðamaður sá eitt upplýsingaskilti þar sem varað er við hættu við Hlauptungufoss en annars voru þau hvergi sjáanleg og því ljóst að þörfin fyrir fleiri skilti er rík.
„Við ætlum að reyna að tyggja þetta í kollinn á fólki að þó að áin sé falleg þá er hún hættuleg. Það gerist víst, segja fagmennirnir, með upplýsingagjöf á staðnum,” segir Rúnar en hugsanlegt er að gönguleiðinni frá Laugarvatnsvegi verði lokað að vetri til í öryggisskyni.
Allir á sömu nótum
Spurður hvort allir landeigendurnir séu sammála og samstíga varðandi þær aðgerðir sem ráðist hefur verið kveðst hann telja að allir tali á sömu nótunum. „Sem betur fer erum við öll mannleg og þegar einhver tapar lífinu þá vitum við öll að það þarf að gera eitthvað, það er skilningur á því og samvinna.”