Ljón sem flúið hafði heimili sitt elti konu og tvö börn niður götu í Lahore í Pakistan í fyrrakvöld. Öryggismyndavélar sýna ljónið stökkva yfir vegg áður en það hóf að elta fjölskylduna.
Ljóninu, sem er 11 mánaða karldýr, var haldið sem gæludýri og hafa þrír menn verið handteknir í tengslum við málið.
Ljónið hefur nú verið flutt á náttúruverndarsvæði og er sagt vera við góða heilsu.
Eigendunum skemmt
Á öryggismyndavélum sést ljónið stökkva yfir grindverkið við heimili sitt og hefja að elta konu með innkaupapoka sem var á gangi með fjölskyldu sinni. Það hoppaði á bak konunnar sem varð til þess að hún féll á jörðina.
Eiginmaður konunnar sagði við lögreglu að ljónið hefði síðan snúið sér að fimm og sjö ára börnum þeirra og klórað hendur þeirra og andlit.
Konan og börnin voru flutt til aðhlynningar á spítala en voru ekki talin með alvarlega áverka.
Eigendur ljónsins komu út og var að sögn eiginmannsins skemmt við að sjá ljónið sitt ráðast á fjölskylduna.
Lögum um eignarhald stórra katta breytt
„Hinir grunuðu flúðu vettvang með ljónið með sér. Þeir voru handteknir innan tólf klukkustunda,“ sagði lögreglufulltrúi við fréttastofu AFP.
Eignarhald framandi dýra, sérstaklega stórra katta, hefur löngum talist merki um forréttindi og völd í Punjab í Pakistan.
Í desember slapp annað ljón af heimili sínu og var skotið til bana af öryggisverði í hverfinu. Atvikið varð til þess að stjórnvöld settu ný lög um sölu, kaup, ræktun og eignarhald á stórum köttum.
Samkvæmt lögum þurfa eigendur nú að fá sérstakt leyfi fyrir dýrunum sem mega ekki dvelja í íbúahverfum.
Ræktendum er gert að greiða háa upphæð fyrir skráningu dýranna og aðstæður fyrir dýrin verða að vera að lágmarki 10 hektarar að stærð.