fös. 4. júlí 2025 16:49
Daði Már Kristórfersson fjármálaráðherra í þingsal Alþingis
Tíu milljarða tap á Íslandsbankasölu

Daði Már Kristófersson fjármálaráðherra játaði á Alþingi að sala á hlutabréfum í Íslandsbanka hefði ekki reynst jafnábótasöm og til hefði staðið, sölutapið hefði numið 10 milljörðum króna. Hann vildi hins vegar ekki kannast við að hafa látið innistæðulaus orð falla um hversu örugg fjárfesting bankinn væri.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi nú eftir hádegið, en þar spurði Hildur Sverrisdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins, hann út í söluna.

Hildur sagði útboðið hafa gengið vel og ríkisstjórnin gumað mikið af því, allir hlutir ríkisins hafi selst og um 10 þúsund nýir eigendur að bankanum. Hins vegar hefði í vikunni komið fram í nýútkomnum ríkisreikningi, að 10 milljarða króna sölutap hefði verið á hlutunum og vildi hún vita hvaða skýringar væru á því.

Daði Már var óvenju stuttur í spuna of sagði ástæðuna einfalda, tekjur af sölunni hefðu verið áætlaðar í tíð fyrri ríkisstjórnar, en þegar hlutir eru seldir á markaði væri erfitt að spá fyrir um endanlegt söluverði.

„Reynist það lægra en áætlanir gera ráð fyrir er einfaldlega eðlilegt að bókfærður sé sá munur sem tap.“

Öruggustu fjárfestingarnar

Hildur spurði einnig um orð sem Daði Már lét falla í viðtali við Ríkisútvarpið morguninn sem Íslandsbankaútboð hans hófst. Af því tilefni sagði hann m.a. að „íslenskir bankar væru meðal öruggustu fjárfestinga sem til eru“ og vildi Hildur vita hvort ummæli hans ættu sér stoð í útboðslýsingunni.

Fjármálaráðherra svaraði því ekki með beinum hætti.

„Nú er rétt að taka fram að ummælin snerust ekki um Íslandsbanka heldur réttilega, eins og hv. þingmaður tók fram, um íslenska banka og var þar verið að vísa til þá nýútkominnar úttektar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (AGS) á íslenska hagkerfinu og því mati sem AGS lagði á stöðu íslenskra banka,“ svaraði Daði Már fyrirsopurn Hildar.

Margrædd ummæli Daða Más – útbjóðanda í miðju útboði – hafa áður verið tilefni frétta og voru raunar til umfjöllunar í lögfræðihorni Smartlands, þar sem fram kom að allar yfirlýsingar í kringum hlutabréfaútbréf verði að vera í samræmi við það sem stendur í útboðslýsingunni.

Samkvæmt því var fjármálaráðherra tæplega heimilt að vísa til skýrslu AGS í miðju útboðinu nema það hafi einnig verið gert í útboðslýsingu. Hins vegar nefndi fjármálaráðherra AGS ekki til sögunnar í þessu viðtali, þó skýrsla hans kunni að hafa verið honum í huga.

 

 

Viðtal í upphafi Íslandsbankaútboðs

Viðtalið var tekið við hann í tilefni Íslandsbankaútboðsins 13. maí og um það snerust spurningarnar. Tímasetningin og samhengið skiptir þar öllu, en um útboðið sagði ráðherrann eftirfarandi:

„Ég held að fólk ætti að kynna sér þennan kost. Ég held það sé jákvætt að það sé almenn þátttaka í hlutabréfaviðskiptum. Íslenskir bankar eru meðal öruggustu fjárfestinga sem til eru þannig ég held þarna sé tækifæri fyrir almenning hafi hann áhuga á því að eiga hlutabréf.“

Athugasemd hann um „öruggustu fjárfestingar“, sem var hent á lofti í fyrirsögn fréttar Rúv., og að „þarna sé tækifæri“ laut þannig beint að Íslandsbankaútboðinu, sem þá var að fara af stað. Eftirspurnin varð mun meiri en búist var við og var því í miðjum klíðum ákveðið að selja öll hlutabréf ríkisins í bankanum en ekki aðeins hluta þeirra, eins og upphaflega var lagt upp með.

Fjármálaeftirlit Seðlabankans var spurt út í fyrrgreinda yfirlýsingu í maí og svaraði því til að þar ræddi ekki um óheimila fjárfestingaráðleggingu í skilningi laga. Hins vegar var í því svari ekki horft til ofangreindrar lagaskyldu útbjóðanda til þess að veita ekki aðrar eða frekari upplýsingar um útboðið en fram kemur í útboðslýsingu.

til baka