Ítalski tenórsöngvarinn Franco Corelli fæddist í Ancona á Ítalíu 8. apríl 1921 og lést í Mílanó 29. október 2003; hafði hann rúm tvö ár um áttrætt. Hann þreytti frumraun sína á sviði á Spoleto-hátíðinni árið 1951 í óperunni Carmen og söng í sléttan aldarfjórðung eða þar til hann dró sig í hlé árið 1976, aðeins 55 ára gamall.
Corelli var þá að margra mati enn í frábæru söngformi þó svo hann hafi kannski raddlega séð staðið á hátindi ferils síns nokkrum árum áður. Þá hafði hann sungið í Berlín, París, Lundúnum, Vínarborg, Mílanó, Róm og New York svo einhverjir staðir séu nefndir – oft á móti söngkonum á borð við Renötu Tebaldi, Mariu Callas, Birgit Nilsson og Leontyne Price – en sem dæmi má nefna að á Metrópólítanóperunni söng Corelli 282 sýningar í 18 hlutverkum.
Sjálfmenntaður söngvari
Segja má að Corelli hafi að mestu verið sjálfmenntaður söngvari. Hann söng fyrst 18 ára gamall og hlaut meðal annars lof ítalska tónskáldsins Ildebrandos Pizzettis. Sjálfur sagði Corelli að hæðin hefði ekki verið góð og hún skánaði lítið eftir að hann hóf söngnám við Háskólann í Pesaro; auk þess sem röddin minnkaði.
Corelli hætti fljótlega námi og þróaði sjálfur söngtækni sem fólst í því að syngja með opinn háls og barkakýlið staðsett neðarlega. Þessi tækni gerði Corelli kleift að syngja með ótrúlegum styrkleikamun án þess að liturinn í röddinni breyttist og það er leitun að öðrum dramatískum spintó-tenór sem gat sungið veikt á öllum raddsviðum líkt og Corelli, og þá án þess að bjaga röddina eða nota falsettu.
Sem ungur maður hlustaði Corelli mikið á hljóðritanir með Enrico Caruso og Beniamino Gigli en sjálfur hefur hann nefnt ítalska tenórsöngvarann Giacomo Lori-Volpi sem helsta áhrifavald sinn. Lori-Volpi hjálpaði Corelli að fínpússa tæknina en þegar hann kom fyrst fram þótti röddin einkennast um of af hröðu víbratói, svonefndu caprino.
Þessu hafði Corelli ráðið bót á áður en hann kom fyrst fram við Metrópólítanóperuna árið 1961, þá í hlutverki Manricos í Il trovatore eftir Verdi. En segja má að alla tíð hafi Corelli verið harður við sjálfan sig, það er að segja sönglega séð. Hann velti raddbeitingu mikið fyrir sér og var sannfærður um að söngur hlyti að einkennast af bæði einbeitingu og ástríðu. Samt sem áður áleit hann röddina hjúpaða ákveðinni dulúð; hana væri hægt að móta en aldrei skilja til fullnustu.
Afar geðríkur maður
Sem fyrr segir söng Corelli fyrst við Metrópólítanóperuna árið 1961. Sýningin, haldin 27. janúar, var fyrir margra hluta sakir merkileg. Sama kvöld þreytti Leontyne Price frumraun sína við húsið og ætlaði fagnaðarlátunum að flutningi loknum aldrei að linna (en þau stóðu yfir í 42 mínútur). Skemmst er frá því að segja að Corelli féll í skuggann af Price og gagnrýnandi The New York Times, Harold Schonberg, benti góðfúslega á að ítalski tenórsöngvarinn ætti enn eftir að slípa röddina til.
Franco Corelli var afar geðríkur maður og hann tók atburðum frumsýningarkvöldsins ekki vel – svo vægt sé til orða tekið. Hann læsti sig inni á hótelherbergi sínu og aftók með öllu að koma fram. Daginn eftir, þegar starfsmönnum Metrópólítanóperunnar hafði tekist að lokka hann út, tilkynnti Corelli óperustjóranum Rudolf Bing að hann kæmi aldrei til með að syngja með Price aftur. Ummælin voru á margan hátt dæmigerð fyrir karakter Corellis: Æsingarorð sem féllu í hita leiksins en Corelli átti vitanlega eftir að koma margsinnis fram með Price, bæði austan hafs og vestan.
Það er heldur með öllu óvíst að athyglin sem Price fékk á frumsýningarkvöldinu hafi alfarið snúist um raddlega „yfirburði“ ef svo mætti að orði komast, því þeldökkur listamaður var á þessum tíma býsna sjaldséður á fjölum Metrópólítanóperunnar. Marian Andersson hafði að vísu sungið hlutverk Ulricu í Grímudansleik Verdis árið 1954 en samt sem áður þótti frumraun Price miklum tíðindum sæta.
Bíttu hana í eyrað!
Það væri til að æra óstöðugan að rifja upp allar þær gamansögur sem til eru af æðisköstum Corellis. Þó má skjóta einni að hér til gamans. Á söngferðalagi Metrópólítanóperunnar til Boston var Turandot eftir Puccini á dagskrá með Corelli og Birgit Nilsson í aðalhlutverkum. Í lok annars þáttar sprakk Corelli á limminu en Nilsson hélt lengur út. Skipti engum togum að Corelli gekk rakleitt af sviðinu.
Óperustjórinn Rudolf Bing var kvaddur til og heyrði öskrin í Corelli þegar hann nálgaðist búningsherbergin. Ekki nóg með að söngvarinn væri æstur heldur var eiginkona hans æpandi og hundur þeirra hjóna geltandi, og fór allt fram samtímis í litlu bakherbergi. En Corelli var kvæntur söngkonu, Lorettu di Lelio, sem varð síðar blaðafulltrúi hans. Bæði voru skapheit og hávær rifrildi þeirra í búningsherbergjum fyrir og eftir sýningar voru daglegt brauð.
Þegar Bing náði loks inngöngu hafði Corelli tekist að rispa á sér höndina í æsingnum og eiginkonan krafðist þess að tafarlaust yrði hringt eftir sjúkrabíl. Bing náði að róa Corelli og frú – svo ekki sé minnst á hundinn – og stakk upp á að hann „hefndi“ sín á Nilsson með því að bíta hana í eyrað í ástaratriði þriðja þáttar. Þetta kætti Corelli mjög og sýningin gat haldið áfram. Samkvæmt Bing nægði tillagan ein og sér til þess að koma Corelli á sporið aftur en sagan var börnuð með því að Nilsson hefði afboðað sig á næstu sýningu með svohljóðandi skeyti: „Get ekki sungið sökum hundaæðis“!
Breyttist í taugahrúgu
Það hefur mikið verið skrifað um rödd Corellis. Sjálfsagt eru engar ýkjur að segja hann einn mesta tenórsöngvara 20. aldar en hann hlaut ekki alltaf náð fyrir augum gagnrýnenda. Hann kom til að mynda tiltölulega sjaldan fram í Bretlandi og oftar en ekki þótti þarlendum gagnrýnendum Corelli fulltilgerðarlegur í túlkunum sínum. Mörgum gagnrýnendum hans þótti áhersla á kraft og úthald koma niður á fínni blæbrigðum í túlkun. Vísast má segja að söngstíll Corellis beri merki tíðarandans, til að mynda þegar kemur að því að halda út háum nótum.
Corelli var bæði hár og myndarlegur, dökkur yfirlitum með suðrænt yfirbragð. En þrátt fyrir bæði glæsilegt útlit og mikla sönghæfileika þjáðist hann af gríðarlegum, allt að því sjúklegum sviðsskrekk. Corelli var því gjarn á að hætta við á síðustu stundu og kom það oftar en ekki í hlut óperustjóra að tala um fyrir honum og sannfæra hann um eigið ágæti.
Títtnefndur Rudolf Bing sagðist hafa þurft að beita blöndu af smjaðri og hótunum til að koma Corelli á sviðið og Renata Scotto varð vitni að því þegar það þurfti hreinlega að beita handafli við að koma honum af stað. Hljómsveitarstjórinn Nicola Resigno segir enn fremur að Corelli hafi liðið andlegar vítiskvalir áður en hann steig á svið. Auðvitað hlaut þessi sviðsskrekkur að bitna endrum og sinnum á frammistöðunni.
Við þetta bættist svo að Corelli leið ekki betur í upptökustúdíói en á sviði. Hann gerði að vísu fjölmargar hljóðritanir en breyttist í taugahrúgu um leið og búið var að kveikja á hljóðnemanum. Þá þurfti hann spark í rassinn í orðsins fyllstu merkingu og kom það jafnan í hlut eiginkonunnar, fyrrnefndrar Lorettu di Lelio, að sjá til þess að söngvarinn léti ekki bugast. Þessu varð breski upptökustjórinn James Locke vitni að og bætti því við að meðan á hljóðritunum stóð hefði þurft að fylgjast sérstaklega með Corelli því hann hefði jafnvel átt það til að láta sig hverfa.
Gat ekki sofnað sökum gleði
Sjálfur var Corelli ekki feiminn að viðurkenna þennan veikleika sinn. Í viðtali við Newsweek í mars 1976 komst söngvarinn svo að orði í lauslegri þýðingu:
„Ég hef alltaf verið hræddur. Í upphafi leið mér illa því ég komst ekki upp á háa C-ið en síðar þegar hæðin var orðin góð var ég hræddur um að glata þessum sama tóni. Stundum vakna ég á morgnana og röddin er ómöguleg og þegar ég er í fríi hugsa ég stanslaust um að röddin sé horfin með öllu. Ég hljóðrita allar sýningar og eyði þremur klukkustundum að þeim loknum í að hlusta á afraksturinn. Ef ég stóð mig vel get ég ekki sofið sökum gleði en ef illa tókst til er ég fullur örvæntingar og ann mér ekki hvíldar. Hvers konar líf er þetta eiginlega?“
Eftir aldarfjórðung í þessum hugarheimi hafði Corelli einfaldlega fengið nóg. Þegar kom fram yfir 1970 hafði röddin að vísu dalað örlítið en hann var enn frábær söngvari þegar hann kaus að setjast í helgan stein árið 1976, nokkrum mánuðum eftir fyrrnefnt Newsweek-viðtal.
Til eru nokkrar prýðilegar stúdíóupptökur með Corelli. Hér má nefna verk á borð við Toscu með Lorin Maazel (þar sem Corelli syngur á móti jafnólíkum söngvurum og Birgit Nilsson og Dietrich Fischer-Dieskau), Carmen með Herbert von Karajan, Aidu með Zubin Metha, Turandot með Francesco Molinari-Pradelli og Il trovatore með Thomas Schippers.
Kemur af sjálfu sér að deila má um valið og raunar fátt eitt tínt til. Þá hefur á síðustu árum komið út fjöldinn allur af tónleikahljóðritunum sem margar hverjar eru mjög spennandi (sem dæmi má nefna Toscu frá bæði Parma og Lundúnum).