Kærasta Quang Le sagðist við skýrslutöku hjá lögreglu enga tengingu hafa við starfsemi viðskiptamannsins að öðru leyti en að starfa í hlutastarfi hjá þrifafyrirtæki í hans eigu við skúringar.
Hún gat ekki gefið skýringar á millifærslum inn og út af hennar bankareikningi og gaf lítið sem ekkert upp við lögreglu.
Þess ber að geta að kærastan er jafnframt barnsmóðir Quang Le og fyrrverandi eiginkona hans.
Hún er ein þeirra sex sem voru handtekin í tengslum við rannsókn lögreglu á meintu mansali, peningaþvætti, skipulagðri brotastarfsemi og fleiri málum er tengjast starfsemi hans.
Þetta kemur fram í gæsluvarðhaldsúrskurði sem var birtur á vef Landsréttar. Þar segist hún aðspurð ekki vita hvað Quang Le starfaði við og gaf ekki upp hvað hann aðhafðist á daginn.
Þá vildi hún ekki einu sinni gefa upp nafn systur sinnar sem einnig tengist málinu.
Sagðist ekkert vita um starf kærastans
Sjálf sagðist hún við skýrslutöku skúra í hlutastarfi í þrifafyrirtæki í eigu Quang Le en hefði ekki aðra aðkomu að fyrirtækjum hans. Sagðist hún lítið sem ekkert vita um viðskipti kærastans.
Af gæsluvarðhaldsúrskurði að dæma virðist lögregla telja að systir hennar sé ein þeirra sem tekið hafi við fé þegar verið var að þvætta peninga.
Lögregla spurði kærustu Quang Le m.a. út í millifærslur upp á 2,5 milljónir króna inn á reikning systur sinnar en hún sagðist ekki muna hvers vegna hún hafði lagt peninga þar inn.
Mundi ekki nöfn samstarfsmanna
Við skýrslutöku voru svör kærustunnar að mestu leyti „man ekki“ eða „ég vil ekki svara“.
Þá sagðist hún ekki muna hvað samstarfsfólk hennar í þrifafyrirtækinu heitir og kunni engar skýringar á tæplega 12 milljón krónum sem lagðar höfðu verið inn á reikning hennar á tveggja ára tímabili eða af hverju hún millifærði tæpar 19 milljónir króna inn á reikning Quang Le árið 2022.
Fylgdist með streymi í beinni
Fram kemur að ýmis raftæki voru haldlögð eftir húsleit á heimili þeirra Quang Le í Reykjavík. Lögregla sá meðal annars af skjá á fartölvu að hún gat fylgst með í beinu streymi frá einu fyrirtækja þeirra. Þykir lögreglu það koma illa heim og saman með að hún sinni einungis skúringum í hlutastarfi hjá fyrirtækinu. Sagðist hún hins vegar við yfirheyrslur einungis hjálpa kærastanum við að sjá hvort gestir hjá fyrirtækinu væru búnir að koma eða ekki.