Á einhvern hátt er það að duga eða drepast fyrir Lorde, sem foreldrarnir þekkja sem Ellu Mariju Lani Yelich-O'Connor. Lorde rekur ættir sínar til Króatíu og Írlands og það var árið 2013 sem frumburður hennar, Pure Heroine, sló óforvarandis í gegn.
Þá var hún aðeins sextán ára gömul. Gotneskur blærinn, dulúðin og brosleysið knúði fram samanburð við hina bandarísku Lönu Del Rey sem plægði ekki ósvipaðan fagurfræðiakur. En á meðan Del Rey vann með glys, gömlu Hollywood og brostnar ástir var Lorde einhvern veginn evrópskari, dekkri. Nær Siouxsie Sioux en Gretu Garbo.
Pure Heroine var gríðarlega vel tekið, naumhyggjuleg nálgunin við nútímapopp þótti framsækin og ljóst varð að Billie Eilish var a.m.k. að glósa hjá sér. Á meðan Lana Del Rey passaði upp á leyndardómsfulla fjarlægð – sérstaklega í blábyrjun ferilsins – var Lorde að tæta upp úr dagbókunum, hellandi úr hjartanu. Án þess þó að missa niður þessa feimnu, smá hættulegu, gotastelpuímynd.
En á meðan Del Rey dældi út plötum fyrst um sinn var Lorde ekki jafn snögg upp á lagið. Þegar önnur plata Lorde, Melodrama, kom út árið 2017 var Del Rey á sinni fimmtu. Og þó að Melodrama hafi náð að viðhalda listrænu skriði Lorde – margir gagnrýnendur sögðu hana toppa fyrstu breiðskífuna og Jack Antonoff, samverkamaður Del Rey til margra ára, sá um upptökustjórn – skaut hún henni ekki á ofurstjörnuhimininn. Sala var undir væntingum og eins var með leikvangatúr í kjölfarið.
Það reynist oft heilladrjúgt þegar staðan er þessi að taka u-beygju, hrista upp í hlutunum, gera eitthvað nýtt. Það gerði Lorde svo sannarlega með Solar Power (2021) sem var léttari og poppaðri en allt það sem hún hafði áður gert (umslagið undirstrikar þetta hressilega). Hins vegar var enginn til í þetta. Platan floppaði og fólk greinilega svo upptekið af innhverfa herbergisljóðskáldinu að það bara höndlaði ekki að sjá Lorde í góðum gír niðri á strönd. Gagnrýnendur voru í mesta lagi volgir, talað var um að platan væri ekki nema hálfbökuð o.s.frv. Góð ráð urðu æ dýrari.
Ég hef alltaf verið hrifinn af Lorde og fannst þessi fyrsta plata eitthvað svo rosaleg. En svo sá maður á eftir listakonunni – eins og svo mörgum – inn í ömurlega mulningsvél poppheima. En. Lorde er enn hér. Heldur sinni stöðu, já, ótrúlegt, og það hefur verið spenna fyrir nýju plötunni. Og nú er allt undir. Frábær fyrsta plata, haldið í horfinu á þeirri seinni og svo pomp á þriðju. Hvernig ætlar hún þá að spila þetta á fjórðu plötunni?
Margir upptökustjórar koma að Virgin og þau lög sem þegar hafa komið út eru stáli slegin, nokk kuldaleg og renna um svalan nútímapoppstokk. Femínismi, sjálfsmynd, gegnsæi, hráleiki og heilindi eru á meðal þeirra þema sem rannsökuð eru í textum. Sólin er því farin, myrkrið hefur steypst yfir á nýjan leik og umslagið minnir helst á plötu með „industrial“-risunum í Nine Inch Nails!
Það á því greinilega að sækja gömlu Lorde-hundana með þessu verki. Endurreisn en líka afturhvarf. Platan hefur verið á meðal oss í nokkra daga þegar þetta er birt og vonandi að hagur strympu hækki.