Draumkenndar og persónulegar sögur sem vísa í raunheim kvenna einkenna verk Valgerðar Sigurðardóttur sem nú eru til sýnis í Ásmundarsal við Freyjugötu.
Valgerður hefur verið búsett í Antwerpen í Belgíu síðasta áratuginn og er þetta fyrsta einkasýning hennar hér á landi eftir að hún útskrifaðist úr Listaháskólanum 2015 en hún lauk meistaragráðu í myndlist við KASK í Gent. Sýningin heitir Þættir en þar sýnir Valgerður sex verk sem unnin eru á leirflísar sem segja má að undirstriki enn betur hið brothætta ástand viðfangsefnisins.
Opin og margræð verk
„Verkin mín eru yfirleitt fígúratív þar sem ég vinn út frá persónulegum draumum, reynslu og sögum. Eitthvað sem mig langar að tjá en passa mig þó að gefa ekki endilega of mikið upp. Ég reyni að halda eftir einhverjum ósvöruðum spurningum því ég held að fleiri geti tengt við verkin ef ég næ að halda þeim svolítið opnum. Þetta eru ekki beinar lýsingar á atburðarás heldur eru þetta meira táknmyndir sem standa fyrir eitthvað. Fólk túlkar verkin á fjölbreytta vegu sem er frábært og sýnir hvað þau eru opin og margræð,“ segir Valgerður en hún starfar sem myndlistarmaður í fullu starfi í Antwerpen og segir það ganga vel.
„Ég hef náð að starfa alveg við þetta síðan árið 2022. Ég er að vinna með Keteleer Gallery og hef tekið þátt í listamessum með þeim og var með einkasýningu í fyrra. Í kjölfar þeirrar sýningar hafði útgáfan Posture Editions samband og vildi gefa út bók um verkin mín. Þá fannst mér þurfa að gera eitthvað úr þessu á Íslandi og ég áttaði mig á því að ég hafði aldrei verið með „alvöru“ einkasýningu á Íslandi frá því að ég útskrifaðist. Ég sótti því um í Ásmundarsal og umsóknin var samþykkt.
Að fara inn í hið ókunna
Ég byrjaði með nokkrar hugmyndir, búin að gera litlar prufuflísar og teikningar og ákvað að þema sýningarinnar yrði konur. Þetta byrjaði því mjög opið og varð að einhvers konar ferðalagi, smátt og smátt fóru öll verkin að tala saman og mynda frásögn út frá mismunandi vinklum. Hér eru verk sem sýna frá t.d. meðgöngu og fanga þá tilfinningu að vera að fara inn í hið ókunna og veit ekki hvað bíður manns þegar maður á von á barni. Þetta eru frumstæðar tilfinningar sem koma upp og stingandi orka. Sjálf varð ég móðir fyrir þremur árum og er enn að vinna úr þeirri upplifun.
Maður þarf smá tíma til þess að geta litið til baka og séð hvað var í gangi. En maður er alltaf að miðla einhverju sem maður hefur gengið í gegnum og ég held að það muni halda áfram að breytast og þróast og viðfangsefnin verði af öllum toga. Þá er ég búin að liggja í alls kyns listasögubókum sem pabbi minn átti og systir mín gaf mér í þrítugsgjöf og greina má áhrif frá þessum madonnuverkum úr listasögunni.“
Verkin vinnur Valgerður á flísar sem hún mótar og brennir sjálf. Hvers vegna velurðu að vinna með flísar?
„Þetta hefur þróast hægt og rólega. Fyrst þegar ég var í skólanum í Gent og hefur síðan þá undið upp á sig og stigmagnast. Í fyrstu var þetta meira eins og að fylla út fleti, næstum eins og í teiknimyndastíl. Svo fór ég að prófa mig áfram með glerunginn og hvort ég gæti náð fram auknum blæbrigðum með litina og hreinlega bara málað með honum líkt og um málverk væri að ræða. Ég prófaði og það kom mér á óvart að það skyldi vera hægt. Maður er samt hálfblindur þegar maður er að því, því glerungurinn er allt öðruvísi á litinn þegar maður setur hann á.
Svo fer ég margar umferðir og sé alltaf bara efsta lagið en ekki það sem hefur átt sér stað í fyrri skrefum. Þá er líka eitthvert frelsi í ferlinu því þegar þetta kemur út úr ofninum þá er ekki hægt að breyta því. Annars myndi ég kannski ekki vita hvenær ég ætti að hætta. Möguleikarnir eru líka margir en það er t.d. hægt að nota speglaglerung og þá er maður allt í einu kominn með spegil inn í málverk, sem maður gæti yfirleitt annars ekki. Þá er hægt með glerungi að ná fram alls konar áferð sem ekki næst með olíu- eða akrýllitum og mér líður eins og ég eigi mikið eftir að leika mér með glerunginn.“
Krefst mikillar þolinmæði
Valgerður segir að kostirnir við flísarnar sé fjölbreytileikinn sem vinnsla þeirra býður upp á.
„Mér finnst þetta svo ótrúlega skemmtileg og fjölbreytt vinna. Stundum er ég bara að fletja út og vinna flísarnar og suma daga að útbúa steypufleka sem ég set aftan á þær. Þá er líka alltaf einhver spenna og krefst mikillar þolinmæði. Það tekur leirinn fimm daga að þorna og hver brennsla tekur einn og hálfan sólarhring og getur verið mikið stress. En mér finnst mjög gott að hafa fundið mér stað í myndlistinni sem mér finnst gaman að vera að vinna í.“
Hvernig er listamannslífið í Antwerpen?
„Það er mjög gott og ég er ekki viss um að ég gæti starfað sem listamaður í fullu starfi hér á Íslandi. Það er allt ódýrara þar, hvort sem um er að ræða húsnæði, mat eða sjálft efnið. Leirpokinn kostar til að mynda miklu minna úti en hér heima. Annars má nefna að það er margt líkt með stemningunni úti og hér.
Ég kem ekki alveg fingrinum á hvað það er en fólk er til dæmis mjög opið og hleypir manni strax inn. Það er hins vegar meiri gallerímenning úti og minna af listamannsreknum rýmum, sem maður saknar smá, en það er samt aðeins að breytast,“ segir Valgerður en fram undan hjá henni eru ýmis verkefni auk þess sem hún tekur þátt í listamessu í Kyoto í nóvember.
Sýning hennar í Ásmundarsal stendur til 10. ágúst.