fös. 4. júlí 2025 18:50
Kristrún kveðst geta fundið fleiri milljarða.
„Ég get fundið þennan eina milljarð“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að ríkisstjórnin muni grípa til þeirra aðgerða sem þurfi til að draga úr þrálátri verðbólgu, hvort sem það felur í sér skattahækkanir eða niðurskurð.

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum þar sem Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknar og Kristrún tókust á.

Sigurður kallaði eftir þjóðarsátt til að ná verðbólgu og vöxtum niður.

Tilbúin að „finna fleiri milljarða“

Kristrún sagðist deila áhyggjum af verðbólgu og vaxtastigi og lagði áherslu á að stjórnvöld hefðu skuldbundið sig til að skila hallalausum fjárlögum árið 2027.

Nú stefnir þó í að lágmarki eins milljarðs króna halla á því ári, þvert á fyrri yfirlýsingar.

„Ég get fundið þennan eina milljarð. Við munum finna þennan eina milljarð og ef það þarf að finna fleiri milljarða þá mun ríkisstjórnin finna fleiri milljarða vegna þess að við erum búin að skuldbinda okkur til þess að senda skýr pólitísk skilaboð um að það muni ekki standa á ríkinu þegar kemur að því að halda aftur af verðbólgu,“ sagði Kristrún.

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og fulltrúi í fjárlaganefnd, sagði í samtali við Morgunblaðið að hallinn væri í raun mun meiri en einn milljarður þar sem ríkisstjórnin hefði ekki gert ráð fyrir verulegri hækkun útgjalda í varnarmál sem hún sjálf boðaði.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/07/04/vanaaetlad_um_tugi_milljarda/

Verðbólgan lækkaði hraðar „í tíð síðustu ríkisstjórnar“

Sigurður Ingi velti fyrir sér svörum Kristrúnar og spurði hvað það fæli í sér þegar hún segist ætla að „finna fleiri milljarða“.

„Eru skilaboðin: Við ætlum að hækka skatta enn frekar? Eða eru skilaboðin: Við ætlum að fara í enn frekara aðhald, niðurskurð? Mínus einn [milljarður], sagði hæstvirtur ráðherra. Já, það er eftir að búið er að taka 3 milljarða úr varasjóðnum þannig að þeir voru mínus 4 [milljarðar]. Munurinn er ekki svo mikill,” sagði Sigurður Ingi og bætti við:

„Lækkunin á verðbólgunni var satt best að segja talsvert hraðari í tíð síðustu ríkisstjórnar og hefur síðan aðeins dregið úr, svona eftir 100 daga ríkisstjórnarinnar. Það er ágætt að hafa pólitískt markmið. Það er betra að sýna það í verki.”

 

Munu beita þeim tækjum sem ríkisstjórnin býr yfir

Kristrún svaraði þá Sigurði og útilokaði hvorki hækkun skatta né niðurskurð.

„Ríkisstjórnin mun beita þeim tækjum sem eiga við og sem virka. Hér talar fólk um hvort við munum hækka skatta eða hvort við munum skera niður. Ef háttvirtur þingmaður er með einhverjar aðrar leiðir til að draga úr afkomu en að minnka útgjöld eða auka tekjur þá myndi ég gjarnan vilja vita hvað það er,” sagði Kristrún og bætti við:

„Það liggur auðvitað fyrir að það mun þurfa að ráðast í einhverjar aðgerðir sem verða erfiðar og annars eru þær ekki trúverðugar. Það treystum við okkur í.”

til baka