fös. 4. júlí 2025 13:47
Yuval Raphael flytur framlag Ísraels í keppninni í vor, New Day Will Rise. Ísraelum var ekki bönnuð þátttaka árið 2026 á aðalfundi EBU sem lýkur í London í dag.
Ísraelar ekki brottrækir úr Eurovision

Ísraelum verður ekki meinuð þátttaka í söngvakeppni evrópskra sjónvarpsstöðva, Eurovision, þrátt fyrir að nokkur aðildarríki EBU, Sambands evrópskra sjónvarpsstöðva, þar á meðal Ísland, hafi mælst til þess að svo yrði gert vegna vígaferla Ísraela á hendur Palestínumönnum.

Á aðalfundi EBU, sem lýkur í London í dag, lauk umræðu um málið án ákvörðunar og var tillögunni vísað til næsta fundar sambandsins á vetrarmánuðum og þá með hliðsjón af gangi mála á Gasasvæðinu.

Eins og Morgunblaðið greindi frá í júnílok lagði Stefán Jón Hafstein stjórnarformaður Ríkisútvarpsins fram svohljóðandi bókun fyrir hönd ríkisstjórnarflokkanna:

Komi fram til­laga á vett­vangi EBU um að vísa ísra­elska rík­is­út­varp­inu úr sam­tök­un­um og/​eða söngv­akeppn­inni vegna fram­göngu ísra­elskra stjórn­valda gagn­vart íbú­um á Gaza-svæðinu bein­ir stjórn þeim til­mæl­um til Rík­is­út­varps­ins að styðja slíka til­lögu að höfðu sam­ráði við stjórn. Þar er vísað til for­dæm­is gagn­vart Rússlandi og Hvíta-Rússlandi vegna óviðun­andi fram­göngu þeirra ríkja.

Taldi stjórnina umboðslausa

Í til­efni af bók­un meiri­hlut­ans lagði Ingvar Smári Birg­is­son, full­trúi Sjálf­stæðis­flokks, fram til­lögu um að út­varps­stjóra yrði falið að óska eft­ir skrif­legu áliti hlut­hafa Rík­is­út­varps­ins, hvers full­trúi er ráðherra menn­ing­ar­mála, á því hvort Rík­is­út­varpið ætti að styðja áður­nefnda til­lögu á vett­vangi EBU.

Fjór­ir stjórn­ar­menn studdu til­lög­una en hún var felld með fimm at­kvæðum meiri­hlut­ans. Þá lagði Ei­rík­ur S. Svavars­son, full­trúi Miðflokks­ins, fram bók­un þar sem hann kvaðst ekki telja að stjórn­in hefði umboð til um­ræddr­ar ákv­arðana­töku. Hún væri í eðli sínu póli­tísk og rétt að um hana hefði út­varps­stjóri sam­ráð við ráðherra á sama hátt og gert var þegar Rússlandi var vikið úr Eurovisi­on. Hinir þrír full­trú­ar minni­hluta lýstu þá yfir að þeir styddu bók­un­ina. 

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/28/tekist_a_um_malefni_eurovision/

Í aðsendri grein sinni á Vísi á þriðjudaginn, 1. júlí, skrifaði Stefán Jón Hafstein að stjórn EBU stæði frammi fyrir afdrifaríkri ákvörðun: „Ætti ríki sem situr undir trúverðugum ásökunum um stríðsglæpi að fá að vera áfram þátttakandi á menningarhátíð Evrópu?“

Þátttaka Rússlands vanvirða

Bendir Stefán Jón á að austurríski söngvarinn og Eurovision-sigurvegarinn hafi dregið línuna og látið eftirfarandi orð falla: „Ég vil að næsta Eurovision fari fram í Vín án Ísraels.“

Skrifar Stefán Jón að eftir innrás Rússa í Úkraínu árið 2022 hafi EBU tekið þá siðferðislegu ákvörðun að útiloka Rússland frá keppninni. Sagði í framhaldinu í grein hans:

Evrópuríki á borð við Svíþjóð, Finnland, Pólland og Ísland kröfðust þess í nafni friðar og samstöðu. EBU sagði: „Ákvörðunin endurspeglar áhyggjur af því að, í ljósi fordæmalausrar kreppu í Úkraínu, myndi þátttaka rússnesks atriðis í keppninni þetta árið vanvirða keppnina.“ Síðan var sagt í yfirlýsingu: „Framkvæmdastjórn EBU tók ákvörðunina með hliðsjón af reglum keppninnar og gildi EBU, eftir víðtækt samráð meðal aðildarlanda.“

Í umfjöllun ísraelska vefmiðilsins Ynet er haft eftir embættismönnum í ranni EBU að þátttaka Ísraels í Eurovision muni velta á því hvernig ófriðurinn á Gasa þróist. „Haldi stríðið áfram í vetur, þegar málefnið verður tekið upp á ný, mun [ísraelska ríkisútvarpið] KAN eiga óhægt um vik að halda áfram þátttöku,“ skrifar blaðamaður Ynet, en nokkur ríki hafa sett sig upp á móti því að Ísraelar fái að stíga á svið, svo sem Ísland, Slóvenía, Írland og Spánn.

Meira en söngvakeppni í augum Ísraela

Lönd sem hins vegar styðja Ísrael til þátttöku eru Austurríki, Grikkland, Kýpur, Sviss og Þýskaland, en fulltrúar breska ríkisútvarpsins BBC lýstu því yfir að útvarpið gengi ekki til neinnar atkvæðagreiðslu um málið – hins vegar fagnaði það áframhaldandi umræðu.

Giannis Argyriou skrifar um málið á Eurovision-fréttasíðuna Eurovisionfun og vitnar þar í lögfræðing ísraelska ríkisútvarpsins, Ayala Mizrahi, sem segir Eurovision vera mun meira en söngvakeppni í augum Ísraela og bendir á þær áraraðir sem Ísrael hefur tekið þátt í keppninni.

Af öllum framlögum Ísraela í keppninni frá upphafi þátttöku þeirra árið 1973, er Íslendingum, sem komnir eru af léttasta skeiði, ef til vill hve ferskust í minni frammistaða þeirra félaga Avi Kushnir og Natan Datner árið 1987 sem þeir sungu á hebresku, lagið Shir Habatlanim, eða Rónalagið í íslenskri þýðingu.

Margir minnast þess væntanlega sem „Húbba húlle“-lagsins sem hlaut aðeins 73 stig í keppninni árið 1987 og varð tilefni þess að menningarmálaráðherra Ísraels hótaði að segja af sér embætti. Sama ár söng Halla Margrét Hægt og hljótt eftirminnilega sem skilaði henni sextánda sætinu – sama sæti og Gleðibankinn vermdi í fyrstu keppninni með þátttöku Íslands, í Bergen í Noregi 3. maí 1986.

EBU

Ynet

Eurovisionfun

til baka