fös. 4. júlí 2025 14:59
Guðrún og Kristrún tókust á um frumvarp innviðaráðherra.
Tugir þúsunda gætu átt von á skattahækkun

Yfir 80 þúsund manns um land allt eiga í hættu á greiða hærra útsvar ef frumvarp ríkisstjórnarinnar um jöfnunarsjóð sveitarfélaga verður að veruleika, að sögn formanns Sjálfstæðisflokksins. Forsætisráðherra hafnar því að ríkisstjórnin sé að hækka skatta, heldur sé það undir sveitarfélögum komið hvernig þau bregðist við breytingunum verði þær að veruleika. 

Þetta kom fram í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi þar sem Guðrún Hafsteinsdóttir, formaður Sjálfstæðisflokksins, og Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra tókust á.

Guðrún sagði þetta ekki samræmast loforðum ríkisstjórnarinnar um að ætla ekki að hækka skatta á almenning.

https://www.mbl.is/frettir/innlent/2025/06/30/refsing_fyrir_laegra_utsvar/

Jöfnunarsjóði breytt í refsitæki

Frumvarp Eyjólfs Ármannssonar innviðaráðherra gengur út á það að ef sveitarfélag er ekki með útsvarsprósentuna í hámarki en þiggur framlög úr jöfnunarsjóði þá verði sveitarfélagið að hækka útsvarið, ella verði framlög skert.

„Með því að þvinga sveitarfélög til að leggja á hámarksútsvar eða sæta skerðingum á framlögum til grunnþjónustu er verið að breyta jöfnunarsjóði í refsitæki fyrir ábyrg fjármál. Áhrifin eru víðtæk, um 80.000 manns um allt land eiga á hættu að borga hærra útsvar, einfaldlega vegna þess að sveitarfélögin þeirra reyndu að halda í horfinu og skilji eftir meira í vösum íbúanna,“ sagði Guðrún.

„Ekki skattahækkun í boði ríkisstjórnarinnar“

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra svaraði Guðrúnu og sagði að þetta væri ekki skattahækkun „nema sveitarfélögin taki ákvörðun um að hækka sitt útsvar“.

Hún sagði að það væri einfaldlega verið að breyta úthlutunarreglum, sem væri ekkert nýtt af nálinni.

„Þetta er ekki skattahækkun í boði ríkisstjórnarinnar nema það sé ákvörðun hjá þessum sveitarfélögum að bregðast við með þeim hætti að hækka sitt útsvar,“ sagði Kristrún.

Verið að senda hættuleg skilaboð

Guðrún sagði frumvarpið ekki vera neitt nema refsingu sem muni leiða til skattahækkana út um allt land, í boði ríkisstjórnar sem hafi undirritað stjórnarsáttmála þar sem tekið hafi verið fram að ekki ætti að hækka skatta á almenning.

„Auk þess er hér verið að senda mjög hættuleg skilaboð um að sveitarfélög sem sýni ráðdeild og ábyrgð eigi von á skerðingum,“ sagði Guðrún.

til baka