mið. 9. júlí 2025 13:00
María Jónsdóttir var aðeins 17 ára þegar hún stofnaði Djammleigu.
Stofnaði fyrirtæki aðeins 17 ára gömul

María Jónsdóttir var aðeins 17 ára þegar hún lét draum sinn verða að veruleika og stofnaði Djammleigu í mars árið 2023. Nú, tveimur árum síðar, er hún 19 ára og reksturinn enn í fullum gangi.

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á tísku og litið á klæðaburð sem mikilvægt tjáningarform,“ segir María.

„Hugmyndin að Djammleigu kviknaði eftir að ég hafði ítrekað lánað vinkonum mínum kjóla. Þá fór ég að velta fyrir mér að skapa hringrás þar sem fatnaður fengi að njóta sín aftur og aftur í stað þess að vera aðeins notaður einu sinni.“

Eftir að hafa kynnt sér sambærilegar hugmyndir erlendis ákvað María að taka skrefið. Hún pantaði fyrstu flíkurnar, stofnaði Instagram-síðu undir nafninu Djammleiga og hóf reksturinn samhliða menntaskólanáminu.

Krefjandi byrjun

Í upphafi mætti María ýmsum áskorunum, meðal annars að kynna hugmyndina fyrir fólki; að leigja kjól í stað þess að kaupa. 

„Margir voru óvissir í byrjun og það fór mikill tími í að fræða viðskiptavini og byggja upp traust. Með aukinni umræðu og meðvitund um sjálfbærni í tísku, fór áhuginn að aukast og boltinn fór að rúlla, segir hún.

Það reyndist einnig áskorun að samræma rekstur fyrirtækisins og námið en með góðu skipulagi tókst Maríu að finna jafnvægi milli skólans og Djammleigu.

„Ég fór að hluta til í fjarnám svo ég gæti betur sinnt Djammleigu, haldið utan um pantanir, þvegið flíkurnar og verið til staðar þegar viðskiptavinir komu í mátun.“

 

Leggur áherslu á fjölbreytni

María segir mikilvægt að bjóða upp á fjölbreytni í rekstri sem þessum. Hún lýsir sínum eigin fatastíl sem mjög fjölbreyttum og segir það endurspeglast í úrvali Djammleigu.

„Ég blanda saman ólíkum tímabilum og stílum, allt frá vintage-flíkum yfir í það nýjasta í tískuheiminum. Það skiptir mig miklu máli að allir geti fundið eitthvað við sitt hæfi hjá Djammleigu. Ég vel því vörur með viðskiptavinahópinn í huga, en auðvitað hefur minn persónulegi smekkur líka áhrif.

Innblásturinn sækir hún að mestu á Pinterest en fylgist einnig með áhrifavöldum á Instagram og TikTok.

 

Margir boltar á lofti

Það sem kom Maríu mest á óvart við að reka Djammleigu er hversu margþættur rekstur fyrirtækis er og hversu mikið það reynir á ólíka þætti.

„Ég sem eigandi og rekandi Djammleigu er í raun allt í senn: þjónustufulltrúi, sölumaður, markaðsstjóri, fjármálastjóri og jafnframt sé ég um allan þvottinn. Þetta krefst sveigjanleika, sjálfsaga og skipulags.“

,,Í dag er helsta áskorunin að halda góðu jafnvægi, þar sem ég er í háskólanámi og sinni jafnframt öðrum verkefnum og störfum samhliða rekstrinum.’’

María segist einnig eiga mikið að þakka foreldrum sínum sem hafi veitt henni dýrmæt ráð og stuðning á þessu ferðalagi.

 

Skemmtilegasta við reksturinn

Skemmtilegustu stundirnar hjá Maríu í rekstri Djammleigu eru myndatökudagar fyrir vörumyndir vefsíðunnar.

„Ég er mjög þakklát öllum þeim skvísum sem hafa tekið það að sér að vera fyrirsætur fyrir okkur. Vefsíðan væri ekki svona glæsileg án þeirra,“ segir María og bætir við: „Það er ómetanlegt að sjá viðskiptavini ljóma í flík sem þeim líður vel í.“

Að hefja rekstur svona ung hafi verið mikill skóli og hafi kennt henni margt.

„Þetta ferðalag hefur kennt mér að þora, taka ábyrgð og sýna sjálfstæði, en einnig mikilvægi góðs skipulags og fjárhagslegs jafnvægis.“

 

 

Ráð til þeirra sem vilja stofna fyrirtæki

María ráðleggur öðrum sem vilja stofna fyrirtæki að hafa trú á sjálfum sér og eigin hugmyndum. „Verið óhrædd við að gera mistök, sá sem ekki gerir mistök gerir ekki neitt, þau eru ómissandi hluti af ferlinu. Ekki láta aldur, fjárhagsstöðu eða skoðanir annarra stoppa þig. Eltu þitt innsæi og njóttu ferðalagsins, þetta á að vera gaman.

 

Vinsælasta flíkin

Morana-kjólarnir frá Tiger Mist hafa verið vinsælastir hjá Djammleigu en Ruffle mini-kjóllinn stendur sérstaklega upp úr hjá Maríu.

 

 

Björt framtíð

María sér framtíð Djammleigu fyrir sér í áframhaldandi vexti og þróun. Hún er stolt af því að hafa verið meðal þeirra fyrstu sem kynntu þetta nýja fyrirkomulag á íslenskan markað. Hún vonast jafnframt til þess að með því að deila sinni reynslu geti hún hvatt aðra til að láta drauma sína rætast og taka fyrstu skrefin, hvort sem þau eru stór eða lítil.

 

til baka