lau. 5. júlí 2025 20:00
Kátar konur nutu góðra kræsinga sem Áslaug Snorradóttir matarstílisti og Eirný Sigurðardóttir ostadrottning göldruðu fram með ævintýralegum hætti.
Kátar konur og kræsingar í Elliðaárdalnum

Á sólríku sumarkvöldi fyrir nokkru komu kátar konur saman á pallinum við Höfuðstöðina í Elliðaárdalnum við gömlu kartöfluskemmurnar. Þar nutu þær samveru, veitinga og uppskeru sumarsins undir handleiðslu Áslaugar Snorradóttur, matarstílista og ljósmyndara, og Eirnýjar Sigurðardóttur ostadrottningar.

 

Áslaug og Eirný standa að Iceland Picnic, sem sérhæfir sig í því að skapa einstaka matarupplifanir hvort sem um er að ræða að töfra fram upplifun í laut, uppskeruhátíð eins og þessa, eða afslappað gómsætis grill í garði.

Kryddað með stæl

Í boði var kraftmikil og ilmandi Bloody Mary-súpa sem gestir gátu smakkað til eftir eigin höfði. Í súpuna mátti bæta ferskri piparrót, tabasco, sellerísalti, Worcestershire-sósu, Tajín-kryddi, svörtum pipar, basil og meira til.

„Allt þetta mátti toppa með dásamlegu Haust Vodka fyrir þá sem vildu styrkjandi skvettu. Með súpunni voru einnig sellerístilkar til að hræra með og falleg meðlætisspjót til að narta í,“ segir Eirný og glottir.

 

Miðjarðarhafsblær og meðlætisspjót

Spjótin voru í anda Miðjarðarhafsins, þar sem mættust mozzarella, ólífur, padrón-paprikur, kisuberjatómatar og úrvals salami frá ítalska framleiðandanum Tariello. „Hér var hugmyndaflugið látið ráða ferðinni og allt passaði fullkomlega með krydduðu súpunni,“ segir Eirný og lætur sig dreyma.

 

Klassískur rækjukokteill fékk sér í tána

Sígildur rækjukokteill fékk nútímalegan blæ þegar hann var borinn fram í glösum, með rauðlauk, gúrku og grænum eplum. Í stað sítrónu var kokteillinn fullkomnaður með skvettu af nýja Sumar-gininu frá Og Natura, sem er bragðbætt með hundasúru og limónu.

„Þetta er náttúruleg og íslensk nálgun sem lyftir réttinum á næsta stig. Fersk hundasúra skreytti glösin og bætti við bæði lit og lyst. Síðan settu brakandi súrdeigsbrauð og myrjur settu punktinn yfir i-ið, ljósgræn ætisþistla og Parmigiano Reggiano myrja og svo fetaostamyrja toppuð með bláberjum og grænum chilli,“ segir Eirný en hún er iðin að fara ótroðnar slóðir þegar ostar eru annars vegar.

 

Íslenskur ferskleiki í hávegum hafður

Á borðum blöstu einnig við nýuppteknar íslenskar radísur og ilmandi ferskt salat sem gestir gátu nartað í á meðan sólin gyllti dalinn. „Loks var það desertinn sem töfraði konurnar upp úr skónum, Roquefort með þurrkuðum ananas og súkkulaðiplötum.

til baka