Bandaríska sendiráðið á Íslandi birti á miðvikudag röð færslna á Facebook þar sem varað er við öryggisógnum sem tengjast opnum landamærum, hælisleitendum og skorti á samhæfðum aðgerðum gegn hryðjuverkum.
Færslurnar virðast þó ekki einungis beinast gegn íslandi, heldur frekar Evrópu í heild.
Í fyrstu færslu segir að hryðjuverkamenn þurfi ekki vegabréfsáritanir ef landamærin séu opin.
„Enginn er öruggur án tryggra landamæra og enginn ætti að deyja vegna þess að við brugðumst skyldu okkar,“ segir í færslunni og er þar hvatt til strangari löggjafar og alþjóðlegrar samvinnu í öryggismálum.
Stöðvuðu árás í Vínarborg
Önnur færsla fjallar um atvik í Vínarborg í Austurríki þar sem fyrirhuguð sprengjuárás á tónleika var stöðvuð með aðstoð bandarískra og austurrískra leyniþjónustustofnana.
Þar kemur fram að meintir árásarmenn hafi verið róttæklingar, þar af einn innflytjandi, sem lýst höfðu yfir hollustu við Ríki íslams.
„Þetta er dæmi um raunverulega öryggissamvinnu. Byggjum á því,“ segir í færslunni.
Mikilvægt að vísa mönnum úr landi sem hafa fengið synjun
Í þriðju færslu er fjallað um mann frá Afganistan sem hafði fengið synjun á hælisumsókn í Þýskalandi en dvaldi áfram í landinu og stakk tveggja ára barn og fullorðinn einstakling í almenningsgarði.
Sendiráðið hvetur Evrópuríki til að bregðast við með því að fjarlægja hælisleitendur sem fengið hafa synjun um alþjóðlega vernd tafarlaust.
„Fjöldainnflutningur fólks gerir öfgamönnum kleift að nýta veikleika í kerfinu. Ef Evrópa vill stöðva næstu árás þá þarf að huga að dyrunum og koma í veg fyrir að hryðjuverkamenn gangi beint inn um dyrnar,“ segir í færslunni.
Færslurnar endurspegla áherslur Bandaríkjanna á landamæraöryggi og baráttu gegn hryðjuverkum. mbl.is hefur ekki tekist að fá svör frá sendiráðinu um tilefni færslnanna.