Jeremy Corbyn, fyrrverandi leiðtogi Verkamannaflokksins í Bretlandi, mun stofna nýjan róttækan vinstriflokk í Bretlandi ásamt Zarah Sultana, sem sagði sig úr Verkamannaflokknum á þriðjudag.
Sultana, sem er þingmaður á breska þinginu, greindi frá þessu í gær og tók fram að fleiri þingmenn Verkamannaflokksins myndu slást í för með þeim. Sultana var rekin úr þingflokknum í júlí á síðasta ári en sagði sig ekki sjálf úr flokknum fyrr en núna í vikunni.
Jeremy Corbyn er óflokksbundinn þingmaður en hann hrökklaðist úr Verkamannaflokknum þegar Keir Starmer tók við, þar sem gyðingahatur var talið fá að grassera í flokknum undir stjórn Corbyns.
Breska dagblaðið Telegraph greinir frá.
Ólga í Verkamannaflokknum
Ekki er búið að gefa flokknum nafn en hann verður samansettur af fólki sem aðhyllist sósíalisma og hefur beitt sér gegn Ísrael og stutt við Palestínu.
Keir Starmer, forsætisráðherra Bretlands, þurfti nýverið að láta ríkisstjórn sína draga til baka frumvarp sem hefði skert bætur úr almannatryggingakerfinu. Mikil ólga hefur verið innan Verkamannaflokksins vegna frumvarpsins, en 49 þingmenn Verkamannaflokksins kusu gegn frumvarpinu.
Sultana segir að nýi flokkurinn muni beita sér gegn slíkum skerðingum.
https://www.mbl.is/frettir/erlent/2025/06/27/dregur_frumvarpid_umdeilda_til_baka/
Val á milli „sósíalisma eða villimennsku“
Þegar Sultana tilkynnti um stofnun flokksins sagði hún að næstu kosningar yrðu val á milli „sósíalisma eða villimennsku“.
Þetta opnar á þann möguleika að klofningur verði á vinstri vængnum sem væri mögulega í anda þess sem sést á hægri vængnum með Umbótaflokknum og Íhaldsflokknum.