fös. 4. júlí 2025 13:46
Um tuttugu umsóknir um vernd frá Sýrlendingum sitja nú á hakanum.
Óljóst hvernig skuli afgreiða umsóknir Sýrlendinga

Um tuttugu umsóknir um vernd frá Sýrlendingum bíða afgreiðslu hjá Útlendingastofnun sem er enn að meta aðstæður eftir að einræðisstjórn Bashar al-Assads féll í Sýrlandi í lok seinasta árs.

Þetta segir Þórhildur Hagalín upplýsingafulltrúi Útlendingastofnunar.

Þó nokkur Evrópuríki skoða að senda sýrlenska flóttamenn sem ekki hafa dvalarleyfi aftur til Sýrlands.

Ákvörðun átti að liggja fyrir í maí

Í tilkynningu stofnunarinnar frá því í desember, sem var síðar uppfærð í apríl, segir að stofnunin hafi tekið ákvörðun um að fresta afgreiðslu umsókna um alþjóðlega vernd frá Sýrlendingum vegna óvissu sem ríkir í Sýrlandi.

Ákvörðunin er sögð gilda tímabundið og verði endurskoðuð í maí, sem er liðinn.

Enn sem komið er liggur ekki fyrir niðurstaða í málinu.

Umsóknir um vernd sem fá málsmeðferð á öðrum grundvelli, sem felur í sér endursendingu til annars ríkis sem metið er öruggt, verða áfram afgreiddar.

Austurríki fyrst Evrópusambandsríkjanna

„Við tilkynntum það þegar breytingin [í Sýrlandi] var að gerast, eins og flest önnur ríki sem við berum okkur saman við, að þetta þýddi að það þyrfti að fara yfir þessi mál og umsóknir sem voru í vinnslu var frestað afgreiðslu og það er í rauninni óbreytt hjá okkur. Það er enn verið að meta aðstæður í Sýrlandi upp á nýtt,“ segir Þórhildur.

Austurrísk stjórnvöld vísuðu á dögunum sýrlenskum flóttamanni aftur heim.

Voru þau þar með fyrst ríkja innan Evrópusambandsins til að vísa flóttamanni sem ekki hefur dvalarleyfi aftur til Sýrlands en um hundrað þúsund Sýrlendingar eru í Austurríki eins og stendur. 

til baka