Tónskáldið og píanóleikarinn Gabríel Ólafs hyggst flytja til Los Angeles til að einbeita sér að kvikmyndatónlist. Gabríel var nýverið við upptökur í Japan en honum var jafnframt afar vel tekið á heimssýningunni í Osaka.
Rætt er við Gabríel Ólafs í sunnudagsblaði Morgunblaðsins um ferilinn og það sem fram undan er hjá listamanninum.
Hljóðstofa hans í Hörpu, Reykjavík Orkestra, hefur verið notuð til að taka upp kvikmyndatónlist fyrir stór alþjóðleg verkefni sem hafa meðal annars verið unnin í samstarfi við BBC og Netflix.
Tónlist fyrir þýska kvikmynd
Nú er Gabríel að semja tónlist fyrir þýska kvikmynd og hefur því með stigið skrefið að því að verða kvikmyndatónskáld.
Með þessari frétt fylgir upptaka blaðamanns af tónleikum Gabríels á þjóðardegi Íslands á heimssýningunni í Osaka 29. maí síðastliðinn en hún er birt með leyfi listamannsins. Upptakan var tekin upp á farsíma og eru lesendur beðnir velvirðingar á takmörkuðum gæðum hennar.
Halla Tómasdóttir forseti flutti ræðu á aðalviðburði þjóðardags Íslands á heimssýningunni en fyrr um daginn hafði hún sótt málþing með ungu fólki í skála Sameinuðu þjóðanna, tekið þátt í pallborðsumræðum um jafnréttismál og heimsótt norræna skálann.
Ávarp forseta og ráðherra
Að því loknu fór aðalviðburður þjóðardagsins fram þegar Halla og Yuichiro Koga, vararáðherra efnahags-, viðskipta- og iðnaðarmála Japans, ávörpuðu gesti. Síðan léku íslenskir tónlistarmenn nokkur lög en deginum lauk með hátíðarkvöldverði Höllu og ráðherrans sem var ekki opinn blaðamönnum.
Það var við þetta tilefni sem ofangreind upptaka af tónleikum Gabríels var gerð.
Sagt var frá ræðu Höllu forseta á mbl.is um daginn og birt upptaka af henni, ásamt umfjöllun um heimssýninguna.