Krikket hefur ekki verið mikið stundað á Íslandi en nú er komið keppnislið í greininni sem er á leið á Evrópumót, eins og fram kom í morgunþættinum Ísland vaknar á K100, þar sem Jón Gunnar Þórðarson og Jakob Wayne Víkingur Róbertsson ræddu við þá Bolla og Hjálmar um íþróttina á Íslandi.
Krikketfélagið varð til fyrir um tíu árum síðan þegar Jakob hitti strák frá Indlandi á Klambratúni í Reykjavík.
Þeir hófu æfingar í Sporthúsinu og smám saman söfnuðust saman leikmenn frá fjölmörgum löndum sem búið höfðu lengi á Íslandi án þess að átta sig á að krikket væri hér í boði.
Indland er langstærsta krikketþjóðin og þar á eftir koma Ástralía og Bretland. Önnur áberandi lönd í íþróttinni eru Pakistan, Bangladess, Sri Lanka, Afganistan, Suður-Afríka, Nýja-Sjáland og að ógleymdum Karíbahafseyjum.
Kynntist krikket fyrir mánuði
Jón Gunnar, sem kynntist krikket fyrir aðeins mánuði síðan, ákvað að styðja íslenska landsliðið fjárhagslega með því að gerast helsti styrktaraðili þess.
Hann er stofnandi appsins bara tala sem er ætlað til að kenna íslensku á einfaldan og myndrænan hátt.
Vegna fjölbreytileika þjóðerna innan krikkets á Íslandi sá hann kjörið tækifæri til samstarfs, meðal annars með því að innleiða íslenskan krikketorðaforða í appið.
130 þúsund fylgjendur
Íslenska krikketfélagið nýtur vinsælda erlendis og hefur um 130 þúsund fylgjendur á samfélagsmiðlunum X sem eru fleiri fylgjendur en flest önnur evrópsk krikketlið og jafnvel fleiri en fyrrverandi forsætisráðherra Íslands, Katrín Jakobsdóttir, að þeirra sögn.
Íslenska landsliðið heldur nú til Póllands þar sem það mun keppa á Evrópumótinu í krikket, Euro Cup, dagana 9.-14. júlí. Ísland mun þar mæta Póllandi, Litháen, Lettlandi og Úkraínu og verður hægt að fylgjast með leikjunum í beinni útsendingu í gegnum CricHeroes-appið án endurgjalds.
Áhugasamir geta auðveldlega komist í samband við félagið í gegnum Facebook og fólk sem villl kynna sér appið Bara tala geta fræðst um það á heimasíðu þeirra.
Viðtalið við Jakob og Jón Gunnar má hlusta á í heild sinni á K100.is í þættinum Ísland vaknar.