fös. 4. júlí 2025 11:45
Hagstofan spáir áfram stöðugu gengi

Verðbólga á Íslandi hefur hjaðnað umtalsvert frá því hún náði hámarki í febrúar 2023 og krónan hefur styrkst, samkvæmt nýrri þjóðhagsspá Hagstofu Íslands sem birt var í dag.

Í júní mældist ársverðbólga 4,2% og hefur hún haldist í kringum 4% síðustu mánuði. Áfram eru húsnæðisverð og innlendar vörur helstu drifkraftar verðbólgunnar, en innfluttar vörur hafa dregið úr hækkunum. Sérstaklega má rekja lága verðbólgu í innflutningi til styrkingar krónunnar og lægra olíuverðs.

Spáð er áframhaldandi hjöðnun verðbólgu og að hún verði 3,8% á þessu ári og 2,6% árið 2027. Hagstofan bendir þó á að alþjóðleg óvissa, tollaátök og átök í Mið-Austurlöndum geti haft áhrif á verðbólguþróun á komandi misserum.

Krónan hefur styrkst um 6% frá fyrra ári og gert er ráð fyrir að styrking hennar á árinu verði tæplega 3% að meðaltali, en gengi hennar haldist stöðugt eftir það. Þessi þróun er meðal annars rakin til almennrar veikingu Bandaríkjadollars á alþjóðamörkuðum. Gengisstyrking, aðhaldssöm peningastefna og langtímakjarasamningar styðja við áframhaldandi hjöðnun verðbólgu.

Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands lækkaði stýrivexti í 7,5% í maí, en telur ekki tímabært að slaka frekar á vaxtaaðhaldi þar sem verðbólguvæntingar eru enn yfir markmiði bankans.

Á fjármálamarkaði hafa ný útlán til heimila dregist saman á árinu, en hlutfall óverðtryggðra lána hefur vaxið samhliða lækkun vaxta. Sparnaður heimila er áfram mikill og námu innlán þeirra 35,5% af landsframleiðslu í maí.

til baka